Friday, April 16, 2010
Kvikmyndagerð 09-10
Star Wars
Top 5 - þáttaseríur
24
Ég ætla að byrja á að tala um mjög góða þætti sem eru jafnframt mínir uppáhalds. Það eru þættirnir 24 þar sem Jack Bauer (Kiefer Sutherland) er í aðalhlutverki, hans hlutverk er að vernda Bandaríkin fyrir öllum þeim hættum sem kunna að verða og það sem meira er að hann gerir það næstum því upp á sitt eigið einsdæmi. Jack Bauer hefur gengið í gegnum margt, eiginkona hans og dóttur rænt, eiginkona hans drepin af fyrrverandi hjákonu, tekinn af kínverskum yfirvöldum og pyntaður og svona má lengi telja.
Það sem gerir þessi þætti svo góða eru góðir leikarar, flott hljóðblanda og klikkuð myndataka. Ég fíla sérstaklega þegar þú ert að horfa á þessa þætti og það koma upp fjórir gluggar af mismunandi atriðum sem þú færð að velja úr það sem þér finnst skemmtilegast.
FRIENDS
Þættirnir Friends eru oftar en ekki á vinsældarlistum þáttaunnenda en fólk getur horft á þá aftur og aftur. Þessir þættir eru svokallaðir „good feel“ þættir þar sem hægt er að horfa á þá þegar manni leiðist eða þegar maður er veikur og maður hressist allur við, jafnvel þó að það gæti verið í tuttugasta sinn sem maður sér ákveðinn þátt. Þessir þættir eru um sex vini, Rachel, Pheobe, Monica, Ross, Chandler og Joey en þau hittast yfirleitt á kaffihúsinu Central Perk þar sem þau tala um lífið og tilveruna. Öll eru vinirnir jafn mismunandi og þeir eru margir.
Þættirnir eru í hefbundnara lagi en yfirleitt eru þrjár til fjórar myndavélar í hverju atriði. Hljóðvinnsla er einföld þar sem skellt er inn hlátri áhorfanda eftir vild. Lýsingin er einföld þar sem sömu staðirnir eru notaðir aftur og aftur og eru ljósin yfirleitt tilbúin þegar leikarar og myndatökumenn mæta á staðinn. Hantritið er ekkert flókið en það inniheldur góða brandara og skemmtileg umræðuefni. Það er kannski aðalástæða vinsældarinnar sem þættirnir hafa haft í gegnum tíðina.
FLASHFORWARD
Flashforward eru þættir sem eru bara nýbyrjaðir í Bandaríkjunum en hafa slegið í gegn. Það eru 16 þættir komnir út og eru hver öðrum betri. Þættirnir fjalla um þegar allur heimurinn missir meðvitund á nákvæmlega sama tíma, margar milljónir deyja og skilur restina af samfélaginu slegið af ótta, þeir sem misstu meðvitund og lifðu til að segja frá því fengu sýn fram í framtíðina þar sem þau sjá hvar og hvað þau eiga eftir að vera að gera á ákveðnum tímapunkti í framtíðinni. Skipuð er deild lögreglu sem fær þar verkefni að finna út hvað olli þessu og fyrr en varir sjá þau að ekki er allt með felldu þar sem vísindamenn gætu verið á bakvið þetta stórslys.
Flashforward eru einu dýrustu þættir allra tíma. Tæknibrellurnar eru magnaðar og líkjast frekar einhverju sem ætti að vera á hvíta tjaldinu. Myndatakan er mjög góð en fjöldi myndavéla eru við hvert atriði. Vel er unnið úr öllum klippum og eru með því fullkomnara sem þú getur séð í þáttum í dag.
LOST
Þættirnir Lost hafa í gegnum tíðina fengið mjög mismunandi dóma þar sem þeir eru mjög flóknir og ekki hægt að koma inn í þá á neinum tímapunkti heldur verðuru að hafa séð allt frá byrjun til að geta vitað hvað er að gerast hverju sinni. Þættirnir eru um fólk sem hrapar í flugvél á eyju þar sem þau verða strandaglópar. Eftir að hafa beðið í einhvern tíma á eyjunni fatta þau að þeim verður ekki bjargað í bráð og þurfa því að lifa af meðal hættulegra dýra og skrímsla þar sem þau geta verið drepin við hvern andardrátt, en það gerir þessa þætti mjög spennandi. Eftir smá tíma á eyjunni sjá þau að það eru fleiri á eyjunni en það sem kemur í ljós er að fólkið sem á heima á eyjunni vill ekkert með þau hafa heldur vilja frekar koma þeim fyrir kattarnef.
Þættirnir eru mjög vel gerðir þar sem stórt tökulið og stór leikarahópur gera þættina einstaka. Myndatakan er mjög góð, hljóðvinnslan með því sem þú færð og leikarahópurinn mjög góður.
X-FILES
Þættirnir X-Files hófu göngu sína árið 1993 og þeim lauk árið 2002, en það kom ein kvikmynd út árið 2008 sem fékk misjafna dóma. Þættirnir fjalla um ríkislögregluþegnana Mulder og Skully. Þau eru í deild hjá ríkislögreglunni sem heitir X-files og heita þættirnir eftir því. X-files eru mál sem eru óútskýranleg. Fólk sem hefur dáið óskiljanlegum dauða, dýr og skrímsli sem eiga ekki heima á þessari plánetu og svo rúsinan í pylsuendanum geimverurnar sem eru samkvæmt Mulder á hverju horni heimsins. Mulder og Skully fá ekki að vinna sína vinnu í friði enda er ríkisstjórnin á kafi í öllum þessum málum og vilja ekki að þau séu að stinga nefunum í það sem þeir hafa í gegnum tíðina hylmt yfir.
Þættirnir eru af einfaldari kantinum, geimverurnar sem birtast annað slagið eru aukaleikarar í lélegum búningum, yfirleitt eru bara tvær myndavélar í hverju atriði, ein á leikurunum og ein á hættunni sem er fyrir framan þau. En það sem gerir þessa þætti einstaka er tónlistin, góð samvinna leikara og myrkrið sem umvifur þættina og maður gleymir fljótt göllunum í gerð þáttanna!
Sunday, April 11, 2010
Steven Spielberg
Steven Spielberg fæddist þann 18. desember 1946 í Ohio. Foreldrar hans voru Leah Adler og Arnold Spielberg, en þau tengdust kvikmyndum ekki neitt. Hann byrjaði ungur að taka upp kvikmyndir og þá aðallega ævintýramyndir ásamt vinum sínum. Þegar hann var 13 ára þá vann hann verðlaun fyrir 40 mínútna langa stríðsmynd sem hét Escape to Nowhere. Þegar hann var 16 ára þá skrifaði hann og leikstýrði 140 mínútna mynd sem hét Firelight, sem síðar hafði mikil áhrif á Close Encounters. Hann gerði einnig nokkrar stríðsmyndir sem voru byggðar á sögum föður hans frá seinni heimsstyrjöldinni. Spielberg er gyðingur en hann skammaðist sín mjög mikið fyrir það þegar hann var lítill. Þegar foreldrar hans skildu þá fluttist hann með föður sínum til Kalíforníu og þar reyndi hann að komast inn í kvikmyndaskóla en tókst það ekki, þrátt fyrir að hafa reynt það þrisvar sinnum. Ferill hans sem alvöru kvikmyndagerðarmaður byrjaði í rauninni ekki fyrr en hann ákvað að fara til Universal Studios sem ólaunaður nemi og þurfti að mæta til vinnu sjö daga í viku. Þar gerði hann sína fyrstu stuttmynd sem var sýnd í kvikmyndahúsum og hét hún Amblin‘ og kom út árið 1968, og notaði hann það nafn seinna í sínu eigin framleiðandafyrirtæki sem hét Amblin Entertainment. Varaforsetinn hjá Universal sá þessa mynd og í kjölfarið varð Spielberg yngsti leikstjórinn til að fá langtíma samning við stórt stúdíó í Hollywood. Hann byrjaði svo feril sinn sem atvinnuleikstjóri árið 1969.
Í upphafi ferils hans þá vann hann mikið við að gera sjónvarpsefni og tók til dæmis þátt í Night Gallery, Marcus Welby, The Name of the Game og Owen Marshall: Counselor at Law. Eftir þetta þá var hann fenginn til að gera fjórar sjónvarpsmyndir Duel, Something Evil, Savage og The Sugarland Express sem kom út árið 1974 en hún var reyndar sýnd í kvikmyndahúsum. Eftir þetta þá fékk hann sitt fyrsta stóra verkefni en það var Jaws sem kom út árið 1975. Það var nánast búið að hætta við tökur á Jaws vegna mikilla tafa og fjárhagsvandræða en það náðist þó að klára hana, sem betur fer. Jaws hitti vel í mark og fékk þrjú Óskarsverðlaun. Jaws gerði hann að stórstjörnu og hann varð einn af yngstu Bandaríkjamönnum til að verða milljónamæringur, þetta gaf honum mikið frelsi fyrir næstu kvikmyndir hans. Hún var einnig tilnefnd sem besta myndir og var fyrsta myndin hans af þremur sem innihélt leikarann Richard Dreyfuss. Eftir þetta þá afþakkaði Spielberg boð um að leikstýra kvikmyndunum Jaws 2, King Kong og Superman en fór að vinna með Dreyfuss að kvikmyndinni Close Encounters of the Third Kind sem kom út árið 1977. Þetta var ein af fáum myndum sem Spielberg bæði skrifaði og leikstýrði. Myndin fékk sjö tilnefningar til Óskarsins og þar á meðal hans fyrstu tilnefningu sem besti leiktjóri, myndin vann svo aðeins tvo Óskara. Þessi mynd hjálpaði mikið við flug Spielbergs en næsta mynd hans var 1941 sem var mjög dýr seinni heimstyrjaldarmynd en hún olli miklum vonbrigðum og þá aðallega hjá gagnrýnendum.
Næsta verkefni Spielberg var myndin Raiders of the Lost Ark þar sem hann naut liðsinnis George Lucas. Þetta var fyrsta Indiana Jones myndin en Harrison Ford lék einmitt Indiana eins og flestir ættu að vita, en hann hafði einmitt leikið Han Solo í Star Wars myndunum. Raiders of the Lost Ark græddi mest af öllum myndum sem gefnar voru út árið 1981. Myndin hlaut margar tilnefningar til Óskarsins þar á meðal sem besta mynd og líka fyrir besta leikstjórann. Hún er jafnframt mikils metin sem hasarmynd og markaði mikil tímamót þar. Ári seinna gaf Spielberg síðan út myndina E.T. the Extra-Terrestrial. Á sínum tíma varð hún tekjuhæsta mynd sem hafði verið gefin út, en í dag á Avatar það met skuldlaust. Á árunum 1982 til 1985 þá framleiddi Spielberg þrjár mjög tekjuháar myndir en þær voru Poltergeist, The Twilight Zone og The Groonies.
Næsta kvikmynd eftir hann var Indiana Jones and the Temple of Doom, en þar vann hann aftur með George Lucas og Harrison Ford. Þrátt fyrir að myndin var bönnuð innan 13 ára í Bandaríkjunum, fyrir mikið ofbeldi, þá græddi Spielberg eins og venjulega mjög mikið á þessari mynd og þar einmitt hitti hann verðandi konu sína, leikkonuna Kate Capshaw. Árið 1985 þá gaf hann út myndina The Color Purple sem Whoopi Goldberg og Oprah Winfrey léku í. The Color Purple fékk ellefu óskarstilnefningar, þar á meðal fengu Whoopi og Oprah tilnefningar, en það kom mörgum á óvart að Spielberg fékk ekki tilnefningu sem besti leikstjórinn. The Color Purple er aðeins önnur af tveimur myndum sem innihélt ekki tónlist eftir John Williams, en hin myndin var Duel. Árið 1987, þegar Kína byrjaði að opna sig fyrir umheiminum, þá tók Spielberg fyrstu amerísku kvikmyndina í Shanghai síðan frá 1930 en það var myndin Empire of the Sun, þar sem John Malkovich og hinn ungi Christian Bale léku í myndinni. Myndin hlaut mikið lof frá gagnrýnendum og var tilnefnd til sex óskarsverðlauna en hlaut engin.
Hann leikstýrði síðan Indiana Jones and the Last Crusade, sem hefði átt að vera síðasta Indiana Jones myndin, en hún kom út árið 1989. Í þessari mynd fékk hann, auk Lucas og Ford, Sean Connery til liðs við sig sem faðir Indiana. Myndin hlaut heilt yfir ágætis dóma og var mjög tekjuhá eins og fyrri Indiana Jones myndirnar og toppaði meira að segja myndina Batman það árið. Hann leikstýrði einnig myndinni Always árið 1989 þar sem hann vann aftur með Richard Dreyfuss. Þetta var fyrsta rómantíska myndin eftir Spielberg og gagnrýnendur voru ekki á sama máli um ágæti myndarinnar. Árið 1991 leikstýrði hann myndinni Hook, sem fjallar um Pétur Pan og hans ævintýri í Hvergilandi.
Hann leikstýrði síðan myndinni Jurassic Park, sem var byggð á skáldsögu Michael Crichton, árið 1993. Myndin innihélt miklar tæknibrellur sem fyrirtæki George Lucas Industrial Light and Magic gerðu. Þetta varð tekjuhæsta mynd allra tíma og þetta var í þriðja skiptið sem mynd eftir Spielberg bætti metið um tekjuhæstu mynd allra tíma. Hann gaf síðan út myndina Schindler‘s List einnig árið 1993, sem ég vil meina að sé hápunktur ferils hans. En þetta er mynd byggð á sannri sögu um Oskar Schindler sem hætti lífi sínu til að bjarga 1100 gyðingum frá Helförinni. En með Schindler‘s List hlaut Spielberg sínu fyrstu Óskarsverðlaun sem besti leikstjóri og hún vann einnig óskarinn sem besta myndin. Hún fór á topp 10 lista American Film Institute yfir bestu bandarísku kvikmyndir allra tíma árið 1997 og sat þar í 9. sæti en færðist upp í 8. sæti þegar hann var endurskoðaður árið 2007.
Árið 1994 tók Spielbergs sér hlé frá því að leikstýra kvikmyndum til að eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni og byggja upp fyrirtækið DreamWorks sem hann stofnaði ásamt Jeffrey Katzenberg og David Geffen. Hann leikstýrði síðan myndinni The Lost World: Jurassic Park sem fékk vægast sagt tæpa dóma. En þrátt fyrir það þá varð hún í öðru sæti yfir tekjuhæstar kvikmyndir það árið. Næsta mynd hans var myndin Amistad sem var byggð á sannri sögu og fjallaði um afríska þrælauppreisn. Þrátt fyrir ágætis dóma hjá gagnrýnendum þá græddi hún ekki mikið. Hún var framleidd af DreamWorks, eins og allar myndir hans sem komu út eftir hana fram að Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull. Næsta verk eftir hann er seinni heimstyrjaldarmyndin Saving Private Ryan sem kom út árið 1998. Hún hlaut mikið lof gagnrýnenda og ég verð að segja að hann kann svo sannarlega að búa til stríðsmyndir. Saving Private Ryan fjallar um hóp hermanna sem reyna að finna Ryan og koma honum aftur til Bandaríkjanna af því að þrír bræður hans höfðu látið lífið í stríðinu og það væri í rauninni ómannlegat að láta eina móðir þola dauða fjögurra sona í einu stríði. Tom Hanks fer með aðalhlutverkið í myndinni. Spielberg vann sín önnur Óskarsverðlaun sem besti leikstjóri fyrir hana. Myndin átti eftir að hafa mikil áhrif á stríðsmyndir sem komu út eftir hana eins og til dæmis Black Hawk Down og Enemy at the Gates. Þessi mynd var líka fyrsta myndin sem sló rækilega í gegn hjá DreamWorks, en hún framleiddi myndina ásamt Paramount Pictures. Seinna eftir myndina þá framleiddu Spielberg og Hanks sjónvarpsseríuna Band of Brothers.
Árið 2001 þá gerði Spielberg A.I. Artificial Intelligence sem var síðasta verkefni Stanley Kubrick en hann lést áður en hann gat ráðist í þetta verkefni. Spielberg og Tom Cruise unnu síðan saman að gerð myndarinnar Minority Report árið 2002. Myndin hlaut mikið lof gagnrýnenda. Hann gerði svo myndina Catch Me If You Can og í henni léku Leonardo DiCaprio og Cristopher Walken, en Walken fékk fyrir hlutverk sitt óskarinn. Þessi mynd hitti beint í mark hjá áhorfendum og gagnrýnendum um allan heim. Hann gerði myndin War of the Worlds sem innihélt leikarana Tom Cruise og Dakota Fanning. Ólíkt geimverumyndunum E.T og Close Encounters þá voru geimverurnar í myndinni óvinveittar og fjallar um stríð á milli geimveranna og mannkynsins. Enn og aftur hitti Spielberg á réttan nagla og halaði myndin inn peningum.
Spielberg gaf út myndina Munich árið 2005 sem fjallar um atburðina eftir blóðbaðið í Munich árið 1972. Myndin var byggð á bókinni Vengeance: The True Story of an Israeli Counter-Terrorist Team. Munich hlaut fimm Óskarstilnefningar, þar á meðal fyrir besta leikstjórann og bestu mynd. Spielberg gaf síðan út fjórðu myndina um Indiana Jones, sem heitir Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull. Að mínu mati þá hefði hann mátt sleppa því að gera hana því hinar þrjár gerðu hinn fullkomna þríleik en mér finnst þessi mynd engan veginn ná sömu hæðum og þær þrjár.
Steven Spielberg er einhver tekjuhæsti leikstjóri allra tíma og er talið að hann eigi allt að þremur milljörðum bandaríkjadala. Hann hefur gert margar mjög góðar myndir en hann hefur einnig misstigið sig inn á milli og vonandi mun hann halda áfram að gera frábærar kvikmyndir. Hann hefur haft gríðarleg áhrif á kvikmyndagerð og mun vafalaust verða minnst sem eins besta leikstjóra allra tíma.
Topp 5 listinn minn yfir myndir Spielbergs:
1. Schindler‘s List
2. E.T.
3. Indiana Jones myndirnar (fyrstu þrjár myndirnar)
4. Saving Private Ryan
5. Jurassic Park
Sunday, February 28, 2010
Óskarinn!
Tilnefndar eru:
Avatar
The Blind Side
District 9
An Education
The Hurt Locker
Inglorious Basterds
Precious: Based on the Novel ‘Push‘ by Sapphire
A Serious Man
Up
Up in the Air
Mitt val: Persónulega finnst mér einungis fjórar myndir koma til greina og það eru Inglorious Basterds, A Serious Man, The Hurt Locker og Avatar. Mér finnst allar myndirnar vera frábærar og ég held að þær eigi allar skilið að vinna Óskarinn. En ég ætla að velja Avatar því hún er í fyrsta lagi alveg frábær mynd og í öðru lagi þá er þetta algjör tímamótamót sem mun breyta miklu í kvikmyndaheiminum þegar fram líða stundir.
Óskars val: The Hurt Locker
Besti leikari í aðalhlutverki:
Tilnefndir eru:
Jeff Bridges í Crazy Heart
George Clooney í Up in the Air
Colin Firth í A Single Man
Morgan Freeman í Invictus
Jeremy Renner í The Hurt Locker
Mitt val: Ég verð að segja að þetta er frekar erfitt val á milli Morgan Freeman og Jeremy Renner. En ég ætla að velja Jeremy Renner því hann er gjörsamlega frábær í The Hurt Locker og hann gerði þá mynd að því sem hún er. Morgan Freeman var samt mjög góður í Invictus en samt ekki jafn afgerandi og Renner var.
Óskars val: George Clooney
Tilnefndir eru:
Matt Damon í Invictus
Woody Harrelson í The Messenger
Christopher Plummer í The Last Station
Stanley Tucci í The Lovely Bones
Cristoph Waltz í Inglorious Basterds
Mitt val: Ég held að Cristoph Waltz eigi þetta skuldlaust og ég vona innilega að hann vinni þetta. Ég verð samt að viðurkenna að á þessum lista þá hef ég aðeins séð tvær myndir og það eru Basterds og Invictus. En ég held að það sé mjög erfitt að toppa frammistöðu Cristoph Waltz að ég ætla að velja hann sem mitt val.
Óskars val: Cristoph Waltz
Tilnefndar eru:
Sandra Bullock í The Blind Side
Helen Mirren í The Last Station
Carey Mulligan í An Education
Gabourey Sidibe í Precious
Meryl Streep í Julie & Julia
Mitt val: Sandra Bullock. Ég ætla að velja hana því ég hef bara séð þrjár myndir þarna og það eru The Blind Side, An Education og Precious og mér finnst hún bara standa sig best af þeim þremur sem tilnefndar eru þarna.
Óskars val: Er ekki frekar týpískt fyrir Óskarinn að velja Meryl Streep eða Helen Mirren? Ég ætla að segja að Meryl Streep vinni.
Tilnefndar eru:
Penélope Cruz í Nine
Vera Farmiga í Up in the Air
Maggie Gyllenhaal í Crazy Heart
Anna Kendrick í Up in the Air
Mo‘Nique í Precious
Mitt val: Í fyrsta lagi þoli ég ekki Maggie Gyllenhaal en Crazy Heart er eina myndin þarna sem ég hef ekki séð þannig ég ætla bara ekki að velja hana. Af hinum fjórum fannst mér Vera Farmiga standa sig best og þess vegna ætla ég að velja hana.
Óskars val: Penélope Cruz.
Tilnefndar eru:
Coraline
Fantastic Mr. Fox
The Princess and the Frog
The Secret of Kells
Up
Mitt val: Up
Óskars val: Up
Tilnefndir eru:
James Cameron fyrir Avatar
Kathryn Bigelow fyrir The Hurt Locker
Quentin Tarantino fyrir Inglorius Basterds
Lee Daniels fyrir Precious
Jason Reitman fyrir Up in the Air
Mitt val: Ég verð að velja James Cameron fyrir Avatar þrátt fyrir að mér hafi fundist erfitt að velja á milli hans, Kathryn Bigelow og Tarantino. Mér finnst hann bara eiga þetta skilið fyrir að hafa búið til langflottustu kvikmynd sem sést hefur á hvíta tjaldinu.
Óskars val: Kathryn Bigelow.
Tilnefndar eru:
Avatar
District 9
The Hurt Locker
Inglorious Basterds
Precious
Mitt val: Avatar.
Óskars val: The Hurt Locker
Tilnefndar eru:
District 9
An Education
In the Loop
Precious
Up in the Air
Mitt val: Þetta er annaðhvort District 9 eða Up in the Air. Ég ætla að velja Up in the Air.
Óskars val: Mér finnst einhvern veginn týpískt að Óskarinn velji í þessum flokki mestu vælumyndina og því ætla ég að segja að Precious vinni þetta.
Tilnefndar eru:
The Hurt Locker
Inglourious Basterds
The Messenger
A Serious Man
Up
Mitt val: Í þessum flokki finnst mér mjög erfitt að velja, handritin í The Hurt Locker, A Serious Man og Up eru mjög góð. En ég verð eiginlega að velja Inglourious Basterds af því ég elska Tarantino og líka af því handritið er, eins og reyndar allar Tarantino myndir, með góð samtöl og frumlega hugmynd.
Óskars val: The Hurt Locker.
Avatar og A Serious Man
Leikstjórn: James Cameron
Söguþráður: Myndin fjallar um hóp vísindamanna og hermanna á ævintýraeyjunni þar sem Navi-fólkið býr á, takmarkið hjá þessum hóp er í tvennu lagi annars vegar takmarkið hjá vísindamönnunum að skoða og greina ýmislegt yfirnáttúrulegt á eyjunni og síðan takmarkið hjá hermönnunum en það er að ná gersemum eyjarinnar og selja það á jörðinni. Við fylgjum sögu Jake Sully sem er í hjólastól í alvöru lífinu (Sam Worthington) á þessari undraverðu eyju, hann er fenginn til liðs við vísindamennina en vinnur undercover fyrir herinn og þá sérstaklega hinn harða Colonel Miles Quaritch (Stephen Lang). Verkefnið sem hann fær frá Quaritch er að vinna traustsins hjá Navi-fólkinu. Avatar eða manngervingur er í rauninni búningur vísindamannanna til að geta komist auðveldar af í náttúrunni á Pandora eyjunni. Manngervingurinn er miklu stærri en meðalmaður, sterkari og fljótari og erfiðara að drepa en mannveran. Í fyrstu ferð Jake í manngervingabúningnum þá þarf hann að hlaupa undan mjög hættulegum verum og endar á því að hitta Neytiri (Zoe Saldana) sem er ein af alvöru Navi-fólkinu. Sagan heldur síðan áfram og Jake fer að læra af Navi-fólkinu og reynir að vinna sér inn traustið hjá þeim en það gengur vægast sagt illa. En þetta er það eina sem ég vil segja um söguþráðinn í myndinni.
Tónlist: Tónlistin er samin af James Horner. Líkt og myndin sjálf þá er tónlistin draumkennd og mjög falleg og hún getur alveg verið feimin á köflum. Tónlistin er samt mjög flott og bara æðisleg eins og flest allt við þessa mynd.
Leikarar: Perónulega finnst mér leikararnir vera að finna upp hjólið í þessari mynd en samt finnst mér Sam Worthington, Zoe Saldana og Sigourney Weaver leika mjög vel í þessari mynd. Að auki ætla ég segja að það mætti bara alfarið henda leikkonunni Michelle Rodriguez úr öllum kvikmyndum því ég trúi ekki orði af því sem hún segir þegar hún er að leika. Stephen Lang finnst mér leika ágætlega í fyrri hluta myndarinnar en dala svolítið þegar líða tekur á myndina.
En já allavega, umhverfið á Pandora eyjunni er rosalega fallegt og eiginlega yfirnáttúrulega flott. Þegar Navi-fólkið labbar framhjá plöntum og trjám þá lífgast umhverfið við, kviknar í rauninni á plöntunum, frekar erfitt að útskýra þetta en mjög flott.
Síðan má tala um hvernig verurnar á eyjunni eru. Í fyrsta lagi eru það Navi-fólkið, þeir líta út eins og bláir kettir. Mjög heillandi verur sem glóa í myrkri og eru mjög tignarlegar. Þau tala sérstakt tungumál sem var sérstaklega búið til fyrir þessa mynd og það gerir Navi-fólkið ennþá meira trúverðugra að það sé til í alvörunni, var mjög sáttur með það, ákváðu ekki að nota enskuna sem tungumál þeirra þótt sumir af Navi-fólkinu kunni vissulega sitt hvað í ensku þá er það nógu trúverðuglega útskýrt til þess að maður trúir því að þau geti kunnað það. Síðan eru það Banshee‘s sem eru fljúgandi verur sem minna um margt á risaeðlufugla. Til þess að tengjast Banshee þarf maður að velja einn þannig og Banshee þarf að velja mann til baka, maður veit að hann valdi mann líka með því að reyna að drepa mann og til þess að tengjast honum þarf maður að tengja langa hárið á manni við veruna. Eftir að þetta gerist tekur maður sitt fyrsta flug á honum og stjórnar honum með huganum. Aðrar verur eru magnþrungnar, flottar, ógnvekjandi og mjög hættulegar nema maður nái að tengjast þeim sem einn af Navi-fólkinu.
Ég skal samt viðurkenna það að handritið mætti vera frumlegra og það mætti líka henda einum eða tveimur leikurunum út annars er myndin fáranlega flott á alla vegu. Ég samt þoli ekki þegar fólk segir við mig að myndin sé bara léleg útaf því handritið mætti vera frumlegra, myndin í heild sinni er fáranlega flott og vel gerð og þegar ég hugsa um hvernig mætti gera handritið frumlegra þá er það eiginlega of erfitt. Ég meina ef þetta hefði verið mynd bara um Navi fólkið þá hefði hún ekki verið skemmtileg, hún hefði kannski verið áhugaverð en það þurfti eitthvað að gerast og þess vegna er mannkynið í myndinni. Ég veit að söguþráðurinn er týpískur en hann virkar og hann hrindir líka sögunni af stað. Þetta er tímamótamynd og bara fyrir það eitt finnst mér að hún ætti að vinna Óskarinn, ég veit samt ekki hvort hún muni vinna en hún er klárlega contender að mínu mati.
Einkunnagjöf: 9,5 af 10
Nafn myndar: A Serious Man
Leikstjórn: Ethan Coen og Joel Coen.
Söguþráður: Myndin fjallar um manninn Larry Gopnik sem vinnur sem eðlisfræðikennari í Midwestern háskólanum. Hann kemst að því í upphafi myndarinnar að konan hans vilji skilnað og að hún ætli að fara í samband við Sy Ableman sem Larry hefur ekki hátt álit á. Larry og konan hans eiga tvo börn og bróðir hans, Arthyr Gopnik, sefur á sófanum og hann á við mikinn spilavanda að stríða. Sonur hans Danny á við erfitt agavandamál að stríða og dóttir hans Sarah er að stela peningum af honum til þess að geta farið í lýtaaðgerð á nefinu. Við fylgjumst með hinum hefðbundna dag hjá Larry þar sem nemendurnir hans nenna ekki að hlusta á hann og hann á í erfiðleikum með að fá góðan hlut af búi hans og konu sinnar hjá lögfræðingnum sínum. Það má taka það fram að fjölskyldan eru öll gyðingar. Við fylgjumst síðan með Larry og erfiðleikum hans sem eru peningavandræði, mútur frá einum nemenda sem hann veit ekki hvort hann eigi að þiggja og loks öll fjölskylduvandamálin sem eru mjög mörg og af öllum toga.
Tónlist: Tónlistin er samin af Carter Burwell og er hún mjög góð.
Heildarmynd: Þetta er grátbrosleg mynd um aumingja Larry sem allir virðast vera sama um. Mér finnst hún fyndin á köflum og frekar áhugaverð mynd. Ég verð samt að segja það að þessi mynd er langt frá því að vera besta mynd Coen bræðra og á hún í rauninni ekkert í myndir eins og No Country for Old Men, The Big Lebowski og Fargo. Hún er samt þokkalega góð. Þetta er enn einn contenderinn í óskarinn fyrir bestu mynd.
Einkunnagjöf: 9,0 af 10
The Hurt Locker og Inglorious Basterds
Leikstjórn: Kathryn Bigelow
Söguþráður: Myndin fjallar um hóp manna sem hafa það verkefni að aftengja sprengjur í stríði. Nú kemur nýr yfirmaður á svæðið sem heitir James og hann er ekki beint í uppáhaldi hjá Sanborn og Eldridge. Ástæðan fyrir því að Sanborn og Eldridge þola hann ekki er útaf því að James svífst einskis þegar hann aftengir sprengjurnar og kemur þeim öllum þremur nokkrum sinnum í mjög hættulega stöðu. James lítur út fyrir að vera drullusama um lífið sitt og í rauninni hjá öllum öðrum í kringum sig. Þetta fer sérstaklega í taugarnar á þeim útaf því það er aðeins mánuður eftir hjá þeim í Írak og svo fá þeir að fara þeim. Sanborn og Eldridge vilja ofar öllu komast lífs af þessa örfáu daga sem eftir eru en James ætlar að gera þeim erfitt fyrir og hugsa þeir meira segja nokkrum sinnum í að enda allt kjaftæðið í kringum hann, það er að segja með því að drepa hann, en þeir guggna samt á því. Við fylgjumst með þessum hóp vinna við starf sitt alla myndina og hversu hættuleg þessi vinna er.
Tónlist: Tónlistin er samin af Marco Beltrami og Buck Sanders. Tónlistin er mjög taugastrekkjandi þegar það á við sem er þó nokkuð oft í myndinni og hún er eiginlega bara frábær.
Heildarmynd: Myndin snýst um hversu erfitt herstarfið er í Írak og boðskapurinn er, eins og stóð í upphafi, „The rush of battle is often a potent and lethal addiction, for war is a drug“. Myndatakan er til mikillar fyrirmyndar, handritið er frábært og leikararnir eru flottir. Þetta er mynd sem á eftir að berjast mikið um sigurinn í bestu mynd.
Einkunnagjöf: 9,1 af 10
Nafn myndar: Inglorious Basterds
Leikstjórn: Quentin Tarantino
Söguþráður: Myndin hefst á því að unga stelpan Shosanna Dreyfus sér fjölskyldu sína myrta af Hans Landa, hún kemst hins vegar undan. Myndin fjallar síðan um hóp manna frá Bandaríkjunum sem fara til Frakklands og hafa þeir aðeins eitt verkefni að drepa alla nasistana. Fyrir þessum hópi fer Lt. Aldo Raine og kallast hópurinn sig Basterds. Þeir fara til Frakklands og reyna að drepa alla nasista sem þeir sjá og þegar þeir hafa gert það þá skera þeir höfuðleðrið af þeim. Við fylgjumst síðan með þessum tveimur söguþráðum, það er að segja sögu Shosanna og sögu Bastarðana. Shosanna vinnur núna í kvikmyndahúsi ásamt einum svertingja. Einn daginn þegar hún er að ganga frá öllu þá hittir hún Frederick Zoller sem er ein stærsta hetja Þjóðverja og hann hefur mikinn áhuga á henni en hún vill ekkert gefa til baka útaf því að það voru nasistar sem höfðu drepið fjölskyldu hennar. En síðan gefst henni tækifæri á að hefna sín á nasistunum þegar þeir bjóða henni að halda bíósýningu í kvikmyndahúsinu sínu og þar mundu allir helstu forystumenn Þjóðverja mæta og þar á meðal Hans Landa. Bastarðarnir halda síðan áfram sínu göfuga verkefni og komast brátt á snoðir um þessa bíósýningu nasistanna og gefa því ákveðna athygli útaf því þarna er hlaðborð af nasistum fyrir þá að drepa. Stóra uppgjörið er í nánd og við fylgjumst með því hvernig það þróast.
Tónlist: Ég finn ekki hver samdi tónlistina í þessari mynd en eins og venjulega í Tarantino myndum þá velur hann hana líklega bara sjálfur. Eins og í flestum Tarantino myndum þá er tónlistin algjör snilld.
Heildarmynd: Tarantino kann alveg sitt fag, myndin er frábær í alla staði. Handritið er algjör snilld, leikararnir eru mjög góðir og bara heildarmyndin á þessu meistaraverki er bara frábært. Hún á algjörlega skilið að fá Óskarinn og mun hún berjast um að fá hann, það er engin spurning um það að mínu mati. En akademían mun samt eiga í miklum erfiðleikum með að gefa henni óskarinn því hún er ekki beint þessi týpíska „óskarsmynd“.
Einkunnagjöf: 9,3 af 10