Sunday, April 11, 2010

Steven Spielberg

Eftir að hafa horft á Indiana Jones myndirnar um helgina þá ákvað ég að gera þetta blogg um Steven Spielberg.

Steven Spielberg fæddist þann 18. desember 1946 í Ohio. Foreldrar hans voru Leah Adler og Arnold Spielberg, en þau tengdust kvikmyndum ekki neitt. Hann byrjaði ungur að taka upp kvikmyndir og þá aðallega ævintýramyndir ásamt vinum sínum. Þegar hann var 13 ára þá vann hann verðlaun fyrir 40 mínútna langa stríðsmynd sem hét Escape to Nowhere. Þegar hann var 16 ára þá skrifaði hann og leikstýrði 140 mínútna mynd sem hét Firelight, sem síðar hafði mikil áhrif á Close Encounters. Hann gerði einnig nokkrar stríðsmyndir sem voru byggðar á sögum föður hans frá seinni heimsstyrjöldinni. Spielberg er gyðingur en hann skammaðist sín mjög mikið fyrir það þegar hann var lítill. Þegar foreldrar hans skildu þá fluttist hann með föður sínum til Kalíforníu og þar reyndi hann að komast inn í kvikmyndaskóla en tókst það ekki, þrátt fyrir að hafa reynt það þrisvar sinnum. Ferill hans sem alvöru kvikmyndagerðarmaður byrjaði í rauninni ekki fyrr en hann ákvað að fara til Universal Studios sem ólaunaður nemi og þurfti að mæta til vinnu sjö daga í viku. Þar gerði hann sína fyrstu stuttmynd sem var sýnd í kvikmyndahúsum og hét hún Amblin‘ og kom út árið 1968, og notaði hann það nafn seinna í sínu eigin framleiðandafyrirtæki sem hét Amblin Entertainment. Varaforsetinn hjá Universal sá þessa mynd og í kjölfarið varð Spielberg yngsti leikstjórinn til að fá langtíma samning við stórt stúdíó í Hollywood. Hann byrjaði svo feril sinn sem atvinnuleikstjóri árið 1969.

Í upphafi ferils hans þá vann hann mikið við að gera sjónvarpsefni og tók til dæmis þátt í Night Gallery, Marcus Welby, The Name of the Game og Owen Marshall: Counselor at Law. Eftir þetta þá var hann fenginn til að gera fjórar sjónvarpsmyndir Duel, Something Evil, Savage og The Sugarland Express sem kom út árið 1974 en hún var reyndar sýnd í kvikmyndahúsum. Eftir þetta þá fékk hann sitt fyrsta stóra verkefni en það var Jaws sem kom út árið 1975. Það var nánast búið að hætta við tökur á Jaws vegna mikilla tafa og fjárhagsvandræða en það náðist þó að klára hana, sem betur fer. Jaws hitti vel í mark og fékk þrjú Óskarsverðlaun. Jaws gerði hann að stórstjörnu og hann varð einn af yngstu Bandaríkjamönnum til að verða milljónamæringur, þetta gaf honum mikið frelsi fyrir næstu kvikmyndir hans. Hún var einnig tilnefnd sem besta myndir og var fyrsta myndin hans af þremur sem innihélt leikarann Richard Dreyfuss. Eftir þetta þá afþakkaði Spielberg boð um að leikstýra kvikmyndunum Jaws 2, King Kong og Superman en fór að vinna með Dreyfuss að kvikmyndinni Close Encounters of the Third Kind sem kom út árið 1977. Þetta var ein af fáum myndum sem Spielberg bæði skrifaði og leikstýrði. Myndin fékk sjö tilnefningar til Óskarsins og þar á meðal hans fyrstu tilnefningu sem besti leiktjóri, myndin vann svo aðeins tvo Óskara. Þessi mynd hjálpaði mikið við flug Spielbergs en næsta mynd hans var 1941 sem var mjög dýr seinni heimstyrjaldarmynd en hún olli miklum vonbrigðum og þá aðallega hjá gagnrýnendum.

Næsta verkefni Spielberg var myndin Raiders of the Lost Ark þar sem hann naut liðsinnis George Lucas. Þetta var fyrsta Indiana Jones myndin en Harrison Ford lék einmitt Indiana eins og flestir ættu að vita, en hann hafði einmitt leikið Han Solo í Star Wars myndunum. Raiders of the Lost Ark græddi mest af öllum myndum sem gefnar voru út árið 1981. Myndin hlaut margar tilnefningar til Óskarsins þar á meðal sem besta mynd og líka fyrir besta leikstjórann. Hún er jafnframt mikils metin sem hasarmynd og markaði mikil tímamót þar. Ári seinna gaf Spielberg síðan út myndina E.T. the Extra-Terrestrial. Á sínum tíma varð hún tekjuhæsta mynd sem hafði verið gefin út, en í dag á Avatar það met skuldlaust. Á árunum 1982 til 1985 þá framleiddi Spielberg þrjár mjög tekjuháar myndir en þær voru Poltergeist, The Twilight Zone og The Groonies.

Næsta kvikmynd eftir hann var Indiana Jones and the Temple of Doom, en þar vann hann aftur með George Lucas og Harrison Ford. Þrátt fyrir að myndin var bönnuð innan 13 ára í Bandaríkjunum, fyrir mikið ofbeldi, þá græddi Spielberg eins og venjulega mjög mikið á þessari mynd og þar einmitt hitti hann verðandi konu sína, leikkonuna Kate Capshaw. Árið 1985 þá gaf hann út myndina The Color Purple sem Whoopi Goldberg og Oprah Winfrey léku í. The Color Purple fékk ellefu óskarstilnefningar, þar á meðal fengu Whoopi og Oprah tilnefningar, en það kom mörgum á óvart að Spielberg fékk ekki tilnefningu sem besti leikstjórinn. The Color Purple er aðeins önnur af tveimur myndum sem innihélt ekki tónlist eftir John Williams, en hin myndin var Duel. Árið 1987, þegar Kína byrjaði að opna sig fyrir umheiminum, þá tók Spielberg fyrstu amerísku kvikmyndina í Shanghai síðan frá 1930 en það var myndin Empire of the Sun, þar sem John Malkovich og hinn ungi Christian Bale léku í myndinni. Myndin hlaut mikið lof frá gagnrýnendum og var tilnefnd til sex óskarsverðlauna en hlaut engin.

Hann leikstýrði síðan Indiana Jones and the Last Crusade, sem hefði átt að vera síðasta Indiana Jones myndin, en hún kom út árið 1989. Í þessari mynd fékk hann, auk Lucas og Ford, Sean Connery til liðs við sig sem faðir Indiana. Myndin hlaut heilt yfir ágætis dóma og var mjög tekjuhá eins og fyrri Indiana Jones myndirnar og toppaði meira að segja myndina Batman það árið. Hann leikstýrði einnig myndinni Always árið 1989 þar sem hann vann aftur með Richard Dreyfuss. Þetta var fyrsta rómantíska myndin eftir Spielberg og gagnrýnendur voru ekki á sama máli um ágæti myndarinnar. Árið 1991 leikstýrði hann myndinni Hook, sem fjallar um Pétur Pan og hans ævintýri í Hvergilandi.

Hann leikstýrði síðan myndinni Jurassic Park, sem var byggð á skáldsögu Michael Crichton, árið 1993. Myndin innihélt miklar tæknibrellur sem fyrirtæki George Lucas Industrial Light and Magic gerðu. Þetta varð tekjuhæsta mynd allra tíma og þetta var í þriðja skiptið sem mynd eftir Spielberg bætti metið um tekjuhæstu mynd allra tíma. Hann gaf síðan út myndina Schindler‘s List einnig árið 1993, sem ég vil meina að sé hápunktur ferils hans. En þetta er mynd byggð á sannri sögu um Oskar Schindler sem hætti lífi sínu til að bjarga 1100 gyðingum frá Helförinni. En með Schindler‘s List hlaut Spielberg sínu fyrstu Óskarsverðlaun sem besti leikstjóri og hún vann einnig óskarinn sem besta myndin. Hún fór á topp 10 lista American Film Institute yfir bestu bandarísku kvikmyndir allra tíma árið 1997 og sat þar í 9. sæti en færðist upp í 8. sæti þegar hann var endurskoðaður árið 2007.

Árið 1994 tók Spielbergs sér hlé frá því að leikstýra kvikmyndum til að eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni og byggja upp fyrirtækið DreamWorks sem hann stofnaði ásamt Jeffrey Katzenberg og David Geffen. Hann leikstýrði síðan myndinni The Lost World: Jurassic Park sem fékk vægast sagt tæpa dóma. En þrátt fyrir það þá varð hún í öðru sæti yfir tekjuhæstar kvikmyndir það árið. Næsta mynd hans var myndin Amistad sem var byggð á sannri sögu og fjallaði um afríska þrælauppreisn. Þrátt fyrir ágætis dóma hjá gagnrýnendum þá græddi hún ekki mikið. Hún var framleidd af DreamWorks, eins og allar myndir hans sem komu út eftir hana fram að Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull. Næsta verk eftir hann er seinni heimstyrjaldarmyndin Saving Private Ryan sem kom út árið 1998. Hún hlaut mikið lof gagnrýnenda og ég verð að segja að hann kann svo sannarlega að búa til stríðsmyndir. Saving Private Ryan fjallar um hóp hermanna sem reyna að finna Ryan og koma honum aftur til Bandaríkjanna af því að þrír bræður hans höfðu látið lífið í stríðinu og það væri í rauninni ómannlegat að láta eina móðir þola dauða fjögurra sona í einu stríði. Tom Hanks fer með aðalhlutverkið í myndinni. Spielberg vann sín önnur Óskarsverðlaun sem besti leikstjóri fyrir hana. Myndin átti eftir að hafa mikil áhrif á stríðsmyndir sem komu út eftir hana eins og til dæmis Black Hawk Down og Enemy at the Gates. Þessi mynd var líka fyrsta myndin sem sló rækilega í gegn hjá DreamWorks, en hún framleiddi myndina ásamt Paramount Pictures. Seinna eftir myndina þá framleiddu Spielberg og Hanks sjónvarpsseríuna Band of Brothers.

Árið 2001 þá gerði Spielberg A.I. Artificial Intelligence sem var síðasta verkefni Stanley Kubrick en hann lést áður en hann gat ráðist í þetta verkefni. Spielberg og Tom Cruise unnu síðan saman að gerð myndarinnar Minority Report árið 2002. Myndin hlaut mikið lof gagnrýnenda. Hann gerði svo myndina Catch Me If You Can og í henni léku Leonardo DiCaprio og Cristopher Walken, en Walken fékk fyrir hlutverk sitt óskarinn. Þessi mynd hitti beint í mark hjá áhorfendum og gagnrýnendum um allan heim. Hann gerði myndin War of the Worlds sem innihélt leikarana Tom Cruise og Dakota Fanning. Ólíkt geimverumyndunum E.T og Close Encounters þá voru geimverurnar í myndinni óvinveittar og fjallar um stríð á milli geimveranna og mannkynsins. Enn og aftur hitti Spielberg á réttan nagla og halaði myndin inn peningum.

Spielberg gaf út myndina Munich árið 2005 sem fjallar um atburðina eftir blóðbaðið í Munich árið 1972. Myndin var byggð á bókinni Vengeance: The True Story of an Israeli Counter-Terrorist Team. Munich hlaut fimm Óskarstilnefningar, þar á meðal fyrir besta leikstjórann og bestu mynd. Spielberg gaf síðan út fjórðu myndina um Indiana Jones, sem heitir Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull. Að mínu mati þá hefði hann mátt sleppa því að gera hana því hinar þrjár gerðu hinn fullkomna þríleik en mér finnst þessi mynd engan veginn ná sömu hæðum og þær þrjár.

Steven Spielberg er einhver tekjuhæsti leikstjóri allra tíma og er talið að hann eigi allt að þremur milljörðum bandaríkjadala. Hann hefur gert margar mjög góðar myndir en hann hefur einnig misstigið sig inn á milli og vonandi mun hann halda áfram að gera frábærar kvikmyndir. Hann hefur haft gríðarleg áhrif á kvikmyndagerð og mun vafalaust verða minnst sem eins besta leikstjóra allra tíma.

Topp 5 listinn minn yfir myndir Spielbergs:

1. Schindler‘s List

2. E.T.

3. Indiana Jones myndirnar (fyrstu þrjár myndirnar)

4. Saving Private Ryan

5. Jurassic Park

3 comments:

  1. Hmmm... Færslan er vissulega löng og nokkuð vönduð, en mér finnst hún vera soldið þurr - ég myndi vilja sjá meiri persónulegar pælingar frá þér og minni útdrátt af æviágripi. 9½ stig.

    ReplyDelete
  2. Ég ætlaði að gera það í lokin en var bara orðinn alltof þreyttur og þetta var líka orðið svoldið langt.

    ReplyDelete