Sunday, February 28, 2010

Óskarinn!

Ég ætla að fara yfir helstu verðlaunin sem veittu eru á óskarnum og segja hvað ég mundi velja og síðan hvað ég held að muni vinna.

Besta mynd:

Tilnefndar eru:

Avatar

The Blind Side

District 9

An Education

The Hurt Locker

Inglorious Basterds

Precious: Based on the Novel ‘Push‘ by Sapphire

A Serious Man

Up

Up in the Air

Mitt val: Persónulega finnst mér einungis fjórar myndir koma til greina og það eru Inglorious Basterds, A Serious Man, The Hurt Locker og Avatar. Mér finnst allar myndirnar vera frábærar og ég held að þær eigi allar skilið að vinna Óskarinn. En ég ætla að velja Avatar því hún er í fyrsta lagi alveg frábær mynd og í öðru lagi þá er þetta algjör tímamótamót sem mun breyta miklu í kvikmyndaheiminum þegar fram líða stundir.

Óskars val: The Hurt Locker


Besti leikari í aðalhlutverki:

Tilnefndir eru:

Jeff Bridges í Crazy Heart

George Clooney í Up in the Air

Colin Firth í A Single Man

Morgan Freeman í Invictus

Jeremy Renner í The Hurt Locker

Mitt val: Ég verð að segja að þetta er frekar erfitt val á milli Morgan Freeman og Jeremy Renner. En ég ætla að velja Jeremy Renner því hann er gjörsamlega frábær í The Hurt Locker og hann gerði þá mynd að því sem hún er. Morgan Freeman var samt mjög góður í Invictus en samt ekki jafn afgerandi og Renner var.

Óskars val: George Clooney

Besti leikari í aukahlutverki:

Tilnefndir eru:

Matt Damon í Invictus

Woody Harrelson í The Messenger

Christopher Plummer í The Last Station

Stanley Tucci í The Lovely Bones

Cristoph Waltz í Inglorious Basterds

Mitt val: Ég held að Cristoph Waltz eigi þetta skuldlaust og ég vona innilega að hann vinni þetta. Ég verð samt að viðurkenna að á þessum lista þá hef ég aðeins séð tvær myndir og það eru Basterds og Invictus. En ég held að það sé mjög erfitt að toppa frammistöðu Cristoph Waltz að ég ætla að velja hann sem mitt val.

Óskars val: Cristoph Waltz


Besta leikkona í aðalhlutverki:

Tilnefndar eru:

Sandra Bullock í The Blind Side

Helen Mirren í The Last Station

Carey Mulligan í An Education

Gabourey Sidibe í Precious

Meryl Streep í Julie & Julia

Mitt val: Sandra Bullock. Ég ætla að velja hana því ég hef bara séð þrjár myndir þarna og það eru The Blind Side, An Education og Precious og mér finnst hún bara standa sig best af þeim þremur sem tilnefndar eru þarna.

Óskars val: Er ekki frekar týpískt fyrir Óskarinn að velja Meryl Streep eða Helen Mirren? Ég ætla að segja að Meryl Streep vinni.


Besta leikkona í aukahlutverki:

Tilnefndar eru:

Penélope Cruz í Nine

Vera Farmiga í Up in the Air

Maggie Gyllenhaal í Crazy Heart

Anna Kendrick í Up in the Air

Mo‘Nique í Precious

Mitt val: Í fyrsta lagi þoli ég ekki Maggie Gyllenhaal en Crazy Heart er eina myndin þarna sem ég hef ekki séð þannig ég ætla bara ekki að velja hana. Af hinum fjórum fannst mér Vera Farmiga standa sig best og þess vegna ætla ég að velja hana.

Óskars val: Penélope Cruz.


Besta teiknimyndin:

Tilnefndar eru:

Coraline

Fantastic Mr. Fox

The Princess and the Frog

The Secret of Kells

Up

Mitt val: Up

Óskars val: Up


Besti leikstjóri:

Tilnefndir eru:

James Cameron fyrir Avatar

Kathryn Bigelow fyrir The Hurt Locker

Quentin Tarantino fyrir Inglorius Basterds

Lee Daniels fyrir Precious

Jason Reitman fyrir Up in the Air

Mitt val: Ég verð að velja James Cameron fyrir Avatar þrátt fyrir að mér hafi fundist erfitt að velja á milli hans, Kathryn Bigelow og Tarantino. Mér finnst hann bara eiga þetta skilið fyrir að hafa búið til langflottustu kvikmynd sem sést hefur á hvíta tjaldinu.

Óskars val: Kathryn Bigelow.


Besta klipping:

Tilnefndar eru:

Avatar

District 9

The Hurt Locker

Inglorious Basterds

Precious

Mitt val: Avatar.

Óskars val: The Hurt Locker


Besta adapted handrit:

Tilnefndar eru:

District 9

An Education

In the Loop

Precious

Up in the Air

Mitt val: Þetta er annaðhvort District 9 eða Up in the Air. Ég ætla að velja Up in the Air.

Óskars val: Mér finnst einhvern veginn týpískt að Óskarinn velji í þessum flokki mestu vælumyndina og því ætla ég að segja að Precious vinni þetta.


Besta original handrit:

Tilnefndar eru:

The Hurt Locker

Inglourious Basterds

The Messenger

A Serious Man

Up

Mitt val: Í þessum flokki finnst mér mjög erfitt að velja, handritin í The Hurt Locker, A Serious Man og Up eru mjög góð. En ég verð eiginlega að velja Inglourious Basterds af því ég elska Tarantino og líka af því handritið er, eins og reyndar allar Tarantino myndir, með góð samtöl og frumlega hugmynd.

Óskars val: The Hurt Locker.

Avatar og A Serious Man

Nafn myndar: Avatar

Leikstjórn: James Cameron

Söguþráður: Myndin fjallar um hóp vísindamanna og hermanna á ævintýraeyjunni þar sem Navi-fólkið býr á, takmarkið hjá þessum hóp er í tvennu lagi annars vegar takmarkið hjá vísindamönnunum að skoða og greina ýmislegt yfirnáttúrulegt á eyjunni og síðan takmarkið hjá hermönnunum en það er að ná gersemum eyjarinnar og selja það á jörðinni. Við fylgjum sögu Jake Sully sem er í hjólastól í alvöru lífinu (Sam Worthington) á þessari undraverðu eyju, hann er fenginn til liðs við vísindamennina en vinnur undercover fyrir herinn og þá sérstaklega hinn harða Colonel Miles Quaritch (Stephen Lang). Verkefnið sem hann fær frá Quaritch er að vinna traustsins hjá Navi-fólkinu. Avatar eða manngervingur er í rauninni búningur vísindamannanna til að geta komist auðveldar af í náttúrunni á Pandora eyjunni. Manngervingurinn er miklu stærri en meðalmaður, sterkari og fljótari og erfiðara að drepa en mannveran. Í fyrstu ferð Jake í manngervingabúningnum þá þarf hann að hlaupa undan mjög hættulegum verum og endar á því að hitta Neytiri (Zoe Saldana) sem er ein af alvöru Navi-fólkinu. Sagan heldur síðan áfram og Jake fer að læra af Navi-fólkinu og reynir að vinna sér inn traustið hjá þeim en það gengur vægast sagt illa. En þetta er það eina sem ég vil segja um söguþráðinn í myndinni.

Tónlist: Tónlistin er samin af James Horner. Líkt og myndin sjálf þá er tónlistin draumkennd og mjög falleg og hún getur alveg verið feimin á köflum. Tónlistin er samt mjög flott og bara æðisleg eins og flest allt við þessa mynd.

Leikarar: Perónulega finnst mér leikararnir vera að finna upp hjólið í þessari mynd en samt finnst mér Sam Worthington, Zoe Saldana og Sigourney Weaver leika mjög vel í þessari mynd. Að auki ætla ég segja að það mætti bara alfarið henda leikkonunni Michelle Rodriguez úr öllum kvikmyndum því ég trúi ekki orði af því sem hún segir þegar hún er að leika. Stephen Lang finnst mér leika ágætlega í fyrri hluta myndarinnar en dala svolítið þegar líða tekur á myndina.

Heildarmynd: Förum aðeins yfir hvað gerir þessa mynd svona svakalega. Það kannski fyrsta sem ég þarf að nefna er að handritið var tilbúið fyrir 14 árum en Cameron vildi ekki gera hana á þeim tíma útaf því tæknin til þess að gera myndina var engan veginn nógu þróuð til að framkvæma það sem hann vildi gera í henni. En núna fyrir nokkrum árum fannst honum kominn tími til í að fara í þetta stórverkefni. Hann notaði fullkomnustu þrívíddartæknina og þróaði hana til þess að reyna að gera flottustu 3-D mynd hingað til. Hann bjó líka til sér myndavél til að taka upp atriðin með leikurunum þegar það var verið að taka upp greenscreen atriðin. Í staðinn fyrir að taka upp persónu á greenscreen og láta það atriði síðan í tölvu og bæta við umhverfinu eftir á þá var umhverfið á myndavélinni og gat hann því sagt leikurunum til og sýnt hvernig umhverfið liti út á meðan það var verið að taka upp. Þetta hjálpaði honum rosalega mikið við að gera þetta sem raunverulegast og ég fékk oft á tilfinninguna að þetta væri alvöru heimur og það kom ekki eitt atriði þar sem maður sá GREINILEGA að þetta væri tekið á greenscreen eins og maður sér venjulega.

En já allavega, umhverfið á Pandora eyjunni er rosalega fallegt og eiginlega yfirnáttúrulega flott. Þegar Navi-fólkið labbar framhjá plöntum og trjám þá lífgast umhverfið við, kviknar í rauninni á plöntunum, frekar erfitt að útskýra þetta en mjög flott.

Síðan má tala um hvernig verurnar á eyjunni eru. Í fyrsta lagi eru það Navi-fólkið, þeir líta út eins og bláir kettir. Mjög heillandi verur sem glóa í myrkri og eru mjög tignarlegar. Þau tala sérstakt tungumál sem var sérstaklega búið til fyrir þessa mynd og það gerir Navi-fólkið ennþá meira trúverðugra að það sé til í alvörunni, var mjög sáttur með það, ákváðu ekki að nota enskuna sem tungumál þeirra þótt sumir af Navi-fólkinu kunni vissulega sitt hvað í ensku þá er það nógu trúverðuglega útskýrt til þess að maður trúir því að þau geti kunnað það. Síðan eru það Banshee‘s sem eru fljúgandi verur sem minna um margt á risaeðlufugla. Til þess að tengjast Banshee þarf maður að velja einn þannig og Banshee þarf að velja mann til baka, maður veit að hann valdi mann líka með því að reyna að drepa mann og til þess að tengjast honum þarf maður að tengja langa hárið á manni við veruna. Eftir að þetta gerist tekur maður sitt fyrsta flug á honum og stjórnar honum með huganum. Aðrar verur eru magnþrungnar, flottar, ógnvekjandi og mjög hættulegar nema maður nái að tengjast þeim sem einn af Navi-fólkinu.

Ég skal samt viðurkenna það að handritið mætti vera frumlegra og það mætti líka henda einum eða tveimur leikurunum út annars er myndin fáranlega flott á alla vegu. Ég samt þoli ekki þegar fólk segir við mig að myndin sé bara léleg útaf því handritið mætti vera frumlegra, myndin í heild sinni er fáranlega flott og vel gerð og þegar ég hugsa um hvernig mætti gera handritið frumlegra þá er það eiginlega of erfitt. Ég meina ef þetta hefði verið mynd bara um Navi fólkið þá hefði hún ekki verið skemmtileg, hún hefði kannski verið áhugaverð en það þurfti eitthvað að gerast og þess vegna er mannkynið í myndinni. Ég veit að söguþráðurinn er týpískur en hann virkar og hann hrindir líka sögunni af stað. Þetta er tímamótamynd og bara fyrir það eitt finnst mér að hún ætti að vinna Óskarinn, ég veit samt ekki hvort hún muni vinna en hún er klárlega contender að mínu mati.

Einkunnagjöf: 9,5 af 10


Nafn myndar: A Serious Man

Leikstjórn: Ethan Coen og Joel Coen.

Söguþráður: Myndin fjallar um manninn Larry Gopnik sem vinnur sem eðlisfræðikennari í Midwestern háskólanum. Hann kemst að því í upphafi myndarinnar að konan hans vilji skilnað og að hún ætli að fara í samband við Sy Ableman sem Larry hefur ekki hátt álit á. Larry og konan hans eiga tvo börn og bróðir hans, Arthyr Gopnik, sefur á sófanum og hann á við mikinn spilavanda að stríða. Sonur hans Danny á við erfitt agavandamál að stríða og dóttir hans Sarah er að stela peningum af honum til þess að geta farið í lýtaaðgerð á nefinu. Við fylgjumst með hinum hefðbundna dag hjá Larry þar sem nemendurnir hans nenna ekki að hlusta á hann og hann á í erfiðleikum með að fá góðan hlut af búi hans og konu sinnar hjá lögfræðingnum sínum. Það má taka það fram að fjölskyldan eru öll gyðingar. Við fylgjumst síðan með Larry og erfiðleikum hans sem eru peningavandræði, mútur frá einum nemenda sem hann veit ekki hvort hann eigi að þiggja og loks öll fjölskylduvandamálin sem eru mjög mörg og af öllum toga.

Tónlist: Tónlistin er samin af Carter Burwell og er hún mjög góð.

Leikarar: Persónulega finnst mér aðeins einn leikari standa upp úr og það er Michael Stuhlbarg, hann gjörsamlega fer á kostum og hefði hann átt skilið að fá Óskarstilnefningu fyrir besta leik í aðalhlutverki. Aðrir leikarar sem mér þóttu góðir voru Fred Melamed og Richard Kind.

Heildarmynd: Þetta er grátbrosleg mynd um aumingja Larry sem allir virðast vera sama um. Mér finnst hún fyndin á köflum og frekar áhugaverð mynd. Ég verð samt að segja það að þessi mynd er langt frá því að vera besta mynd Coen bræðra og á hún í rauninni ekkert í myndir eins og No Country for Old Men, The Big Lebowski og Fargo. Hún er samt þokkalega góð. Þetta er enn einn contenderinn í óskarinn fyrir bestu mynd.

Einkunnagjöf: 9,0 af 10

The Hurt Locker og Inglorious Basterds

Nafn myndar: The Hurt Locker

Leikstjórn: Kathryn Bigelow

Söguþráður: Myndin fjallar um hóp manna sem hafa það verkefni að aftengja sprengjur í stríði. Nú kemur nýr yfirmaður á svæðið sem heitir James og hann er ekki beint í uppáhaldi hjá Sanborn og Eldridge. Ástæðan fyrir því að Sanborn og Eldridge þola hann ekki er útaf því að James svífst einskis þegar hann aftengir sprengjurnar og kemur þeim öllum þremur nokkrum sinnum í mjög hættulega stöðu. James lítur út fyrir að vera drullusama um lífið sitt og í rauninni hjá öllum öðrum í kringum sig. Þetta fer sérstaklega í taugarnar á þeim útaf því það er aðeins mánuður eftir hjá þeim í Írak og svo fá þeir að fara þeim. Sanborn og Eldridge vilja ofar öllu komast lífs af þessa örfáu daga sem eftir eru en James ætlar að gera þeim erfitt fyrir og hugsa þeir meira segja nokkrum sinnum í að enda allt kjaftæðið í kringum hann, það er að segja með því að drepa hann, en þeir guggna samt á því. Við fylgjumst með þessum hóp vinna við starf sitt alla myndina og hversu hættuleg þessi vinna er.

Tónlist: Tónlistin er samin af Marco Beltrami og Buck Sanders. Tónlistin er mjög taugastrekkjandi þegar það á við sem er þó nokkuð oft í myndinni og hún er eiginlega bara frábær.

Leikarar: Það eru þrír leikarar sem standa sig frábærlega í myndinni og það eru Jeremy Renner sem leikur William James, Anthony Mackie sem leikur JT Sanborn og svo Brian Geraghty sem leikur Owen Eldridge. Það er samt bara einn leikari sem stendur algjörlega upp úr og það er Jeremy Renner sem er gjörsamlega frábær í þessari mynd.

Heildarmynd: Myndin snýst um hversu erfitt herstarfið er í Írak og boðskapurinn er, eins og stóð í upphafi, „The rush of battle is often a potent and lethal addiction, for war is a drug“. Myndatakan er til mikillar fyrirmyndar, handritið er frábært og leikararnir eru flottir. Þetta er mynd sem á eftir að berjast mikið um sigurinn í bestu mynd.

Einkunnagjöf: 9,1 af 10


Nafn myndar: Inglorious Basterds

Leikstjórn: Quentin Tarantino

Söguþráður: Myndin hefst á því að unga stelpan Shosanna Dreyfus sér fjölskyldu sína myrta af Hans Landa, hún kemst hins vegar undan. Myndin fjallar síðan um hóp manna frá Bandaríkjunum sem fara til Frakklands og hafa þeir aðeins eitt verkefni að drepa alla nasistana. Fyrir þessum hópi fer Lt. Aldo Raine og kallast hópurinn sig Basterds. Þeir fara til Frakklands og reyna að drepa alla nasista sem þeir sjá og þegar þeir hafa gert það þá skera þeir höfuðleðrið af þeim. Við fylgjumst síðan með þessum tveimur söguþráðum, það er að segja sögu Shosanna og sögu Bastarðana. Shosanna vinnur núna í kvikmyndahúsi ásamt einum svertingja. Einn daginn þegar hún er að ganga frá öllu þá hittir hún Frederick Zoller sem er ein stærsta hetja Þjóðverja og hann hefur mikinn áhuga á henni en hún vill ekkert gefa til baka útaf því að það voru nasistar sem höfðu drepið fjölskyldu hennar. En síðan gefst henni tækifæri á að hefna sín á nasistunum þegar þeir bjóða henni að halda bíósýningu í kvikmyndahúsinu sínu og þar mundu allir helstu forystumenn Þjóðverja mæta og þar á meðal Hans Landa. Bastarðarnir halda síðan áfram sínu göfuga verkefni og komast brátt á snoðir um þessa bíósýningu nasistanna og gefa því ákveðna athygli útaf því þarna er hlaðborð af nasistum fyrir þá að drepa. Stóra uppgjörið er í nánd og við fylgjumst með því hvernig það þróast.

Tónlist: Ég finn ekki hver samdi tónlistina í þessari mynd en eins og venjulega í Tarantino myndum þá velur hann hana líklega bara sjálfur. Eins og í flestum Tarantino myndum þá er tónlistin algjör snilld.

Leikarar: Að mínu mati stóðu aðeins tveir leikarar yfir öllum öðrum, þrátt fyrir að hinir leikararnir voru alls ekkert slappir, og það voru Brad Pitt sem leikur Lt. Aldo Raine og Cristopher Waltz sem leikur Hans Landa. Þeir sýna gjörsamlega yfirburðarleik í þessari mynd og í rauninni þá gerðu þeir þessa mynd að því sem hún er.

Heildarmynd: Tarantino kann alveg sitt fag, myndin er frábær í alla staði. Handritið er algjör snilld, leikararnir eru mjög góðir og bara heildarmyndin á þessu meistaraverki er bara frábært. Hún á algjörlega skilið að fá Óskarinn og mun hún berjast um að fá hann, það er engin spurning um það að mínu mati. En akademían mun samt eiga í miklum erfiðleikum með að gefa henni óskarinn því hún er ekki beint þessi týpíska „óskarsmynd“.

Einkunnagjöf: 9,3 af 10

The Blind Side og Up in the Air.

Nafn myndar: The Blind Side

Leikstjórn: John Lee Hancock

Söguþráður: Myndin fjallar um Michael Oher sem er heimilislaus og frekar feiminn gaur. Hann kemst í háskóla útaf því að þjálfari ruðningsliðsins fannst hann vera gott efni í liðið sitt. En það sem Oher þarf að gera til að mega spila ruðning þarf hann að bæta einkunnir sínar. Honum fannst hann ekki eiga heima í háskólanum, segir aldrei neitt í tímum og kennararnir hafa enga trú á honum. Hann sefur í íþróttahúsinu og tekur afganga til að geta borðað. Við kynnumst síðan konu að nafni Leigh Anne Tuohy sem sér Oher labba í rigningunni, hún tekur hann í bílinn og segir honum að gista hjá sér og fjölskyldu hennar. Hann samþykkir það en upprunalega átti þetta aðeins að vera yfir eina nótt sem lengist síðan eftir því sem tíminn líður. Oher fer að tala við son hennar S.J. sem er nánast eina manneskjan sem hann talar við. Í skólanum þá er hann nánast eini blökkumaðurinn og allir horfa á hornauga á hann. Með hjálp Leigh og S.J. þá fara einkunnir hans að batna og hann fær að komast í ruðningsliðið, en hann kann ekki neitt í ruðning því hann hefur aldrei horft á neinn leik og hvað þá spilað. Þjálfarinn verður frekar pirraður og finnur enga leið til að kenna honum hvernig hann á að spila en þá taka Leigh og S.J. sig til og kenna honum hvað hann á að gera.

Tónlist: Tónlistin er samin af Carter Burwell. Tónlistin er mjög róleg og helst til dramatísk en það passar svo sem ágætlega við myndina.

Leikarar: Helstu leikarar eru Quinton Aaron sem leikur Oher, Sandra Bullock sem leikur Leigh og Jae Head sem leikur S.J. Persónulega finnst mér þau leika mjög vel í þessari mynd og þá sérstaklega Jae Head sem er mjög fyndinn og bara flottur karakter í myndinni. Ég hafði miklar efasemdir um Sandra Bullock áður en ég horfði á myndina en hún kemur bara mjög vel út í þessari mynd. Það var samt enginn leikari sem var að finna upp hjólið í þessari mynd.

Heildarmynd: Þetta er falleg mynd um fjölskyldu sem tekur inn einstakling sem þau þekkja ekkert og þeim er drullusama hvað samfélaginu finnst um það. Þetta er sönn saga um Michael Oher og hvernig hann byrjaði á botninum en fannst upp á topp með hjálp mjög ástkærrar fjölskyldu. Þetta er engan veginn besta mynd í heimi en mér finnst hún samt áhugaverð og skemmtileg.

Einkunnagjöf: 8,6 af 10



Nafn myndar: Up in the Air

Leikstjórn: Jason Reitman

Söguþráður: Myndin fjallar um Ryan Bingham sem hefur það sem atvinnu að ferðast um Bandaríkin og reka fólk fyrir yfirmenn fyrirtækja því yfirmenn hata að reka starfsfólkið sitt. Ryan elskar að ferðast og hans helsta markmið er að ná að ferðast samtals 10 milljón mílur í flugvél. Hann ferðast svona mikið til að komast á allar staðsetningarnar sínar til að fá að reka fólk. Hann er mjög góður í mannlegum samskiptum eða reyndar þá bara aðallega í að koma vel frá því að reka fólk. Hann er búinn að búa til ákveðna aðferð í því hvernig á að fara að því. En síðan kemur babb í bátinn því það er kona að nafni Natalie Keener sem hefur náð að koma því í gegn að geta rekið fólk í gegnum símasamtal svo þau þurfa ekki að ferðast svona langt á milli staða. Þetta fer mjög mikið í taugarnar á Ryan sem hefur unnið við að reka fólk í mörg ár og honum finnst það mun persónulegra og betra að reka fólk á staðnum frekar en að gera það í gegnum tölvu. Hann nær að sannfæra yfirmann sinn um að sýna Natalie hvernig það er að reka fólk. Þau fljúga á nokkra staði og þá kemst hún að því að það er alveg rétt hjá honum. Þótt Ryan hitti fullt af nýju fólki á hverjum einasta degi þá er hann einmana en það truflar hann ekkert vegna þess að hann vill ekki giftast og hvað þá að eignast barn. Myndin heldur síðan áfram og fjallar þá aðallega um samstarf hans og Natalie sem vex ásmegin þegar líður á myndina.

Tónlist: Tónlistin er samin af Rolfe Kent. Tónlistin er vægast sagt í miklu aukahlutverki og er nánast engin tónlist undir í myndinni nema kannski í svona 2% af atriðunum.

Leikarar: George Clooney leikur aðalhlutverkið í þessari mynd og hann nær að koma persónu sinni mjög vel frá sér. Ryan Bingham er yfirborðskenndur og nánast tilfinningalaus maður, eða þannig lítur það allavega út því hann lætur það ekkert á sig fá þegar fólk er mjög pirrað eða reitt út í hann þegar hann rekur þau. Vera Farmiga sem leikur Alex Goran stendur sig líka með prýði en hún leikur konuna sem Ryan sefur hjá þegar honum langar til þess, þetta finnst Ryan mjög þægilegt því hann þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af tilfinningum hennar eða neitt þvíumlíkt og hentar hún því honum mjög vel. Anna Kendrick stendur samt eiginlega upp úr leikaralega séð í þessari mynd því hún nær að leika Natalie eiginlega fullkomnlega.

Heildarmynd: Þessi mynd fannst mér líkast mjög mikið til myndarinnar Thank you for Smoking. Þessar tvær myndir fjalla um menn sem eru góðir að tala og ferðast mjög mikið og geta því lítið hugsað um sitt einkalíf. Leikararnir eru fínir og já bara ágætis skemmtun.

Einkunnagjöf: 8,1 af 10

Saturday, February 27, 2010

An Education og District 9

Nafn myndar: An Education

Leikstjórn: Lone Scherfig

Söguþráður: Myndin fjallar um ungu stelpuna Jenny og hennar líf í Lonon í kringum 1960. Foreldrar hennar, þá sérstaklega faðir hennar, vilja endilega að hún fari beint í Oxford, henni langar það að einhverju leyti en bara til að geta farið til Parísar og lifað drauminn. Hún hittir síðan mann sem er tvöfalt eldri en hún og hún verður ástfangin af honum. Jenny fer nú að hætta að læra og eyða nánast öllum sínum frítíma með þessum manni. Einkunnir hennar fara að lækka en samt lítur hún út fyrir að vera mjög ánægð. Hún fer á fína veitingastaði og borðar góðan mat, fer á veðhlaup og vera á óperur. Sagan heldur svo áfram eins og barátta á milli þess hvort hún eigi að vera með honum og hætta í námi eða reyna að gera bæði, sem gengur vægast sagt ekki vel.

Tónlist: Tónlistina samdi Paul Englishby. Tónlistin er mjög framandi og upplífgandi í myndinni og passar það vel við myndina. Hún er í frekar frönskum stíl enda hefur Jenny mjög mikinn áhuga á franskri menningu og kann að tala frönsku reiprennandi.

Leikarar: Helstu leikarar eru Carey Mulligan sem leikur Jenny, Olivia Williams sem leikur Miss Stubbs sem er kennarinn hennar, Alfred Molina sem leikur faðir hennar og Peter Sarsgaard sem leikur Davið eða kærasta Jenny. Persónulega fannst mér Carey Mulligan og Peter Sarsgaard leika afgerandi best í myndinni.

Heildarmynd: Við fylgjumst með ungri og spennandi stelpu sem hittir eldri mann sem er eiginlega meira spennandi heldur en hún. Hann getur logið sig út úr nánast hvaða vandræðum sem hann kemur sér í, getur platað alla og komið þeim á sitt band og ofar öllu hann skemmtir sér mjög mikið á meðan. Skemmtileg mynd en ekkert æðisleg, hún á nánast enga möguleika á að vinna sem besta myndin.

Einkunnagjöf: 7,8 af 10


Nafn myndar: District 9

Leikstjórn: Neill Blomkamp

Söguþráður: Myndin fjallar um mann að nafni Wikus van der Merwe sem er leikinn af Sharlto Copley. Myndin gerist árið 2010 þegar geimverusvæðið District 9 á að vera flutt á annað svæði sem nefnist District 10. Wikus vinnur hjá MNU eða Multi-National United, Wikus fær það skemmtilega verkefni að færa allar geimverurnar ásamt fullt af öðru starfsfólki. Í upphafi myndarinnar þá er hún tekin upp í svona heimildarmyndarstíl þar sem við fylgjumst með Wikus í vinnunni og hvernig hann hefur samskipti við geimverurnar. Myndin tekur síðan ákveðna stefnu þegar hann smitast af einhverju geimverudóti í einu geimveruhúsinu. Við þetta veikist hann mjög mikið og byrjar að umbreytast yfir í eina geimveruna. Við fylgjumst svo með því þegar fyrirtækið reynir að finna Wikus og taka hann í ýmsar rannsóknir og fyrir þeim er Wikus ein mikilvægasta persónan á jarðríki á meðan hann vill verða aftur eins og hann var og komast í faðm konu sinnar.

Tónlist: Tónlistin er samin af Clinton Shorter. Tónlistin er bara fín, hef ekkert beint að setja út á en hún er í rauninni í aukahlutverki í myndinni.

Leikarar: Sharlto Copley stóð sig bara mjög vel að mínu mati. Í byrjun þá er hann þessi kjánalegi og vandræðalegi gaur sem vinnur hjá stórfyrirtæki. En síðan þegar hann þarf að lifa af og búa með geimverunum þá hefur hann breyst í harðan og í rauninni geðveikan mann sem gerir allt til að komast af og til að breyta sér aftur í eðlilega manneskju.

Heildarmynd: District 9 er bara fínasta skemmtun. Hún á samt varla séns í að vinna Óskarinn í þessum hóp. Ég fílaði hins vegar mjög mikið að blanda saman heimildamyndarstíl og venjulegs stíls, það kemur vel út að mínu mati og er þar að auki mjög frumlegt að gera það. Þetta er áhugaverð saga og er einhvern veginn öðruvísi geimverumynd en maður hefur séð. Ég mæli eindregið með þessari mynd og ég held að fáum eigi eftir að leiðast yfir henni því það er einhvern alltaf eitthvað að gerast.

Einkunnagjöf: 8,4 af 10

P.S. Einkunnagjöfin hjá mér er kannski svolítið há fyrir margar myndir sem koma hérna inn, en ég er eiginlega meira að hugsa um Óskarsmyndirnar sem sérpakki og þær mundu ekki beint passa í aðrar einkunnagjafir hjá mér.

Saturday, February 13, 2010

Up og Precious

Jæja núna gafst mér loksins tími á að henda inn bloggi eftir vægast sagt langa fjarveru frá bloggskrifum. Ég ætla að fjalla um allar myndirnar sem eru tilnefndar sem besta myndin á Óskarnum og ég ætla að byrja á Up og Precious.


Nafn myndar: Up

Leikstjórn: Pete Docter og Bob Peterson.

Söguþráður: Myndin fjallar um gamla manninn Carl Fredricksen. Þegar hann var ungur var hann ævintýragjarn og langaði mest af öllu að fara í leiðangur til Suður-Ameríku og hitta goðið sitt Charles Muntz. Hann lét ekkert verða af því. Við kynnumst honum þegar hann er orðinn gamall og konan hans Ellie er látin og Fredricksen hefur voðalega lítið fyrir stafni nema að sofa og borða. Núna eru byggingar í gangi hjá húsinu hans og verktakarnir vilja henda honum út og senda hann á elliheimili, Fredricksen tekur það ekki í mál og lætur loks verða af því að fara í leiðangur til Paradise Falls í Suður-Ameríku. En hann fer ekki í þennan leiðangur einn eins og hann hafði ætlað sér, í húsinu hans leynist átta ára málglaði strákurinn Russell. Ástæðan fyrir því að Russell er með honum er að því að hann á bara eftir að fá eina orðu til að hækka sig um tign hjá skátunum. Þeir lendu í fjöldanum af ævintýrum og koma sér oft í mjög erfiðar og þröngar aðstæður og oft sér maður ekki hvernig þeir kumpánarnir ætla að koma sér frá vandræðunum.


Tónlist: Tónlistin er samin af Michael Giacchino og tekst honum mjög vel upp í þessari mynd og nær að fanga söguþráðinn vel. Hann hefur samið tónlist fyrir myndir á borð við Cloverfield, Mission Impossible III og Ratatouille.

Leikarar: Það er enginn af þeim allavega að fara að vinna Óskarinn fyrir leik en þeir stóðu sig allir snilldarlega vel við að talsetja og ná fram karakternum sínum vel með röddinni.

Heildarmynd: Mér finnst þessi mynd mjög skemmtileg og það er bara alveg eins með allar Pixar myndir, þeir bara virðast ekki klikka. Þeir kunna sitt fag vel og vita hvernig þeir eiga að gera góða og skemmtilega teiknimynd. Jújú frábær mynd í alla staði en mér finnst hún alls ekki eiga skilið Óskarinn fyrir bestu mynd, hún mun vinna fyrir bestu teiknimyndina og það finnst bara nóg.

Einkunnagjöf: 8,2 af 10


Nafn myndar: Precious: Based on the Novel Push by Sapphire

Leikstjórn: Lee Daniels

Söguþráður: Myndin fjallar um ungu og feitu stúlkuna Claireece Precious Jones. Hún þarf að þola mikið af áreiti frá fjölskyldunni sinni. Hún er lögð í einelti af móður sinni og nauðgað af föður sínum. Við komum inn í söguna þegar hún er rekin úr skólanum sínum fyrir að verða ólétt í annað skiptið, bæði skiptin varð hún ólétt af föður sínum, það veit samt enginn af því. Það tekur nánast enginn eftir henni þrátt fyrir hversu feit hún er. Hún er feimin og vill ekki deila erfiðleikum sínum með neinum. Hún er færð í annan skóla og finnst hún vera sérstök af því stærðfræðikennarinn hennar í gamla skólanum finnst hún vera best í stærðfræði af jafnöldrum hennar, móðir hennar er nú samt fljót að brjóta það sjálfstraust niður hjá henni. Precious vill ekkert heitar en að verða fræg og að fólk vilji vera eins og hún. Þegar hún lítur í spegilinn sér hún fallega, hvíta, mjóa og ljóshærða stelpu, sem er auðvitað þveröfugt við það sem hún er. Í nýja skólanum hennar kennir nýji kennarinn hennar loksins að lesa. Hún byrjar að hitta félagsráðgjafann Mrs. Weiss sem kemst að því að faðir hennar barnaði hana. Hún fæðir síðan barnið og nefnir það Abdul, þrem dögum síðar þá missir móðir hennar Abdul viljandi í gólfið og í kjölfarið þá slæst Precious loksins við mömmu sína. Við höldum síðan áfram að fylgjast með erfiðu lífi Precious.

Tónlist: Tónlistin er samin af Mario Grigorov. Persónulega tók ég ekki mikið eftir tónlistinni og var hún í rauninni rosalega lítill hluti af myndinni.

Leikarar: Mér fannst persónulega bara tvær manneskjur standa upp úr leikaralega séð í myndinni og það voru Gabourey Sidibe sem leikur Precious og svo Mo‘Nique sem leikur móður Precious. Þær eiga báðar stórleik í myndinni og voru skiljanlega báðar tilnefndar fyrir besta leik. Það mundi koma mér mikið á óvart ef önnur hvor þeirra mundi ekki vinna Óskarinn.

Heildarmynd: Þetta er átakanleg mynd um erfiða ævi hjá ungri konu sem reynir eftir fremsta megni að gera sitt besta en fjölskylduaðstæður leyfa henni að komast langt. Þetta er svona eiginlega þessi týpíska óskarmynd, því hún er átakanleg og myndin er að segja ákveðna sögu. Minnir mig smá á Milk og Crash. Þessi mynd gæti mögulega unnið Óskarinn þótt ég mundi ekki segja að hún væri besta myndin þarna.

Einkunnagjöf: 8,3 af 10