Reykavík Whale Watching Massacre
Reykjavík Whale Watching Massacre er án vefa versta mynd sem ég hef séð á þessu ári, ef ekki til lengri tíma litið. Þetta er mynd sem á (held ég) að vera hryllingsmynd en breytist einhvern veginn yfir í fyndna splattermynd, en ástæðan fyrir því að hún verður fyndin splattermynd er aðallega útaf því að hún er svo léleg. Ef Júlíus Kemp hefði ætlað sér að greina splattermynd, þá hefði hann átt að gera það aðeins augljósara og þá hefði ég fílað þessa mynd, svona eins og Peter Jackson gerði til dæmis í Braindead. En það er alveg augljóst í þessari mynd að Júlíus ætlaði sér að vekja upp spennu og hrylling hjá áhorfendunum sem tókst bara alls ekki. Ef ég ætti að fara að benda á eitthvað eitt sem mér fannst lélegt við þessa mynd, mundi ég benda á svona tuttugu hluti.
Förum bara aðeins yfir þetta, handritið í þessari mynd fannst mér arfaslakt, atburðarásin og allt sem gerist í myndinni finnst mér vera algjört bull. Samtölin er illa skrifuð og eru bara alls ekki raunsæ. Eini hluturinn sem var fínn við handritið er að þetta er svosem ágætis hugmynd en það er örugglega ekki hægt að fara jafn illa með hugmynd. Bara skelfing. Fyrsta sem ég hefði gert til að laga þetta handrit væri að laga samtölin.
Ég skal samt viðurkenna að ég var gráti næst tvisvar sinnum í þessari mynd. Í fyrra skiptið þegar lagið It‘s oh so quiet er sungið í hátalarakerfinu á skipinu á mjög dramatísku momenti, ástæðan fyrir því var ekki vegna þess hversu hjartnæmt þetta atriði var (sem það var hvort sem er ekki) heldur vegna þess hversu illa var farið með lagið hennar Bjarkar og ég elska Björk og mér fannst þessi útgáfa af þessu lagi jaðra við að vera synd. Seinna skiptið sem ég var næstum því farinn að gráta var þegar creditlistinn var í gangi og þá var ákveðið að fara aðeins verr með lagið hennar Bjarkar. Tónlist eftir Björk eða svipaðan tónlistarmann á ekki að vera notuð í svona lélegri mynd, hvað þá tvisvar sinnum. En já svo ég fari ekki að gráta þá ætla ég að hætta að tala um þessa nauðgun á Björk, sem mér persónulega fannst vera mesta hrollvekjan við þessa mynd. Eina sem ég vil bæta við um tónlistina í þessari mynd var að hún var svosem ágæt, en vakti samt ekki nógu miklu spennu fannst mér og síðan fór þessi nauðgun á Björk svo mikið í taugarnar á mér að það reif niður tónlistina í myndinni að mínu mati.
Mér fannst þessi mynd líkjast svoldið Hostel (ekki það að Hostel hafi verið léleg mynd), mér fannst bara vera svipuð pæling í gangi með þessar tvær myndir. Í báðum myndunum eru siðlausir karakterar sem svífast einskis og gera hvað sem þeim dettur í hug við aðrar manneskjur, sama hversu ógeðslegt það er. Munurinn á þessum tveimur myndum er einfaldlega sá að samtölin, umgjörðin og bara allt við Hostel er gert betur, miklu betur. Maður verður hræddur, spenntur, fyllist hryllingi, allt sem maður er að vonast eftir þegar maður horfir á Hostel en þegar maður horfir á RWWM þá fer maður bara að hlæja þegar atriðin sem eiga að vekja þannig tilfinningar hjá manni koma.
Næsta sem ég vil tala um eru leikararnir. Eini leikarinn sem mér fannst svalur og smá trúverðugur í þessari mynd var Helgi Björnsson, hann var samt ekkert æðislegur, hann má samt eiga það að hann reyndi eftir bestu getu að gera eitthvað gott úr þessu ógeðslega handriti. Ég var allavega smá hræddur við hann, alls ekki mikið samt. Hinir leikararnir stóðu sig mjög illa að mínu mati, svarti maðurinn má samt eiga það að hann var fyndinn, ég held samt að markmiðið með honum í þessari mynd hafi frekar verið að vera með einn mann sem átti að vera harður og það var hann alls ekki.
Leikstjórnin fannst mér alls ekki vera góð hjá Júlíus Kemp. Hann hefur ekkert control á leikurum sem eru bara ys og þys út um allt. Ef það væri eitthvað sem ég mundi vilja benda Júlla á væri það að taka upp hrollvekju í birtu er bara skelfileg pæling, það er bara eins og að vera í sólbaði í myrkri, bara passar ekki. Ef hann ætlar að gera aðra mynd (sem ég persónulega vona að hann geri ekki) þá vil ég að hann eyði miklu meira tíma í myndirnar sínar (ég veit samt ekki hversu langan tíma hann eyddi í þessa mynd), þennan aukatíma sem hann mundi eyða í myndina, ætti alfarið í að ákveða allt umhverfið, koma leikurunum í karakter og laga handritið og þá ætti hann vonandi að geta gert góða mynd.
Mér fannst eitt atriði í þessari mynd vera svalt, það var atriðið þegar Helgi Björnsson skýtur skutulinum í bakið á japananum sem er að synda í burtu. Í því atriði var góð myndataka, flott klipping og Helgi Björnsson stóð fyrir sínu á bakvið skutulinn. Þessi mynd hefði verið snilld hefði hún verið tekin upp í dimmu umhverfi og með fullt af svona svölum atriðum. Ég er kannski svolítið grófur í þessari umsögn minni um þessa mynd, en þetta er nákvæmlega það sem mér finnst um hana, bara skelfileg mynd í alla staði og ég neita að gefa henni aukastjörnu fyrir að vera íslensk.
Stjörnugjöf: hálf stjarna af fimm mögulegum
Færslupöntun: Leggið dóm ykkar á fagið!
13 years ago
Ég hef ekki séð myndina en treysti dómgreind þinni fullkomlega þegar kemur að bíómyndum. Eitt hefði ég samt viljað sjá í gagnrýninni og það er smá umsögn um skelfilega markaðssetningu myndarinnar. Veggspjaldið sem þú velur til að mydskreyta hér er býsna vandað, en upp á síðkastið hefur nánast bara sést annað veggspjald til að kyna myndina. Á því sést Helgi Björnsson horfa út um skítugt kýrauga. Ekki bara er þetta gríðarlega óáhugavekjandi, heldur gæti þetta verið tekið á myndavélasímann hanns Júlla. Einstaklega illa heppnað veggspjald.
ReplyDeleteFín færsla. 6 stig.
ReplyDeleteEftir því sem ég pæli meira í þessu, þá fæ ég á tilfinninguna að handritshöfundarnir beri bara enga virðingu fyrir hryllingsmyndaforminu. OK, margar hryllingsmyndir eru lélegar, með stirð samtöl og illa leiknar, en er það einhver ástæða til þess að gera þetta þrennt viljandi?