Monday, August 31, 2009

Topp 10 listinn

Jæja þá er komið að topp 10 listanum mínum, þetta var líklega það erfiðasta sem ég hef gert en allavega hér kemur þetta. Það eru mjög margar myndir sem hefðu getað komist á þennan lista en ég ákvað að takmarka listann við eina mynd per leikstjóra, til þess að gera þetta aðeins auðveldara.


1. Clockwork Orange (1971)


Þessi mynd hefur verið í fyrsta sæti hjá mér í svona tvö ár. Hún er eftir leikstjórann Stanley Kubrick og kom hún út árið 1971. Þessi mynd gerist í framtíðinni, þótt það komi í rauninni aðeins einu sinni fram í myndinni þegar þeir eru að keyra rauða Durango 95. Þessi mynd snýst um ungan mann sem heitir Alexander de Large og gengið hans. Þessir fjórir menn ganga um nauðga, ræna og ber fólk til óbóta, mjög margar sjúkar senur sem sýna þá „in action“ og maður eiginlega fyllist hrylling en það er samt eitthvað mjög svalt við þá. Eftir að þeir hafa fengið sér „A bit of the old Ultra-violence þá fara þeir mjólkurbarinn Korova Milk bar og skvetta allrækilega úr klaufunum. Myndin fer síðan að halla niður á við fyrir félaga okkar í genginu hans de Large og endar Large í fangelsi en síðan fær hann tækifæri til að sleppa úr fangelsinu með því að fara í meðferð gegn ofbeldi kynlífi og öllu því sem talið er slæmt. Maður mundi halda að þetta mundi aðeins hjálpa fólki en það var þvert á móti, hann gat ekki einu sinni hlustað á uppáhaldstónlistamanninn sinn hann Beethoven aftur án þess að fyllast viðbjóði, ekkert meira in out in out fyrir okkar gamla félaga og maður fer eiginlega að vorkenna honum. Það er það sem mér finnst svo magnað við þessa mynd, maður sem hefur nánast gert allt slæmt í lífi sínu og á í rauninni ekkert betur skilið en að vera pyntaður svo svakalega að hann á ekki að geta staðið upp aftur, samt vorkennir maður honum fyrir að lenda svona illa í því, þótt hann eigi það skilið, æi vá erfitt að útskýra þetta.... En allavega Stanley Kubrick er náttúrulega bara one of a kind, ótrúlegur leikstjóri þar á ferð sem á stórmyndir á borð við Shining, Lolita, Eyes Wide Shuts og Full Metal Jacket. Það er bara ótrúlegt hvernig hann nýtir sér fallega tónlist á borð við tónlistina hans Beethovens og Singin‘ in the Rain til að gera ógeðsleg atriði. Ef þið hafið ekki séð þessa mynd þá vinsamlegast drullið ykkur út á leigu og horfið á hana eða pikkið í mig.


2. Pulp Fiction (1994)


Ef þið viljið sjá svala mynd, finnið þá bara einhverja mynd eftir Tarantino, hann kann aðeins of vel að gera svala og góða mynd. Það sem einkennir myndir Tarantinos er auðvitað löng og aðeins of svöl samtöl og snilldarlega vel valin tónlist. Pulp Fiction skaut Tarantino á stjörnuhimininn og hefur hann aldrei komið niður eftir það, gert hverja svölu myndina á fætur annarri. Í þessari vægast sagt svölu mynd fær hann leikara á borð við Samuel L. Jackson, John Travolta, Bruce Willis og Uma Thurman, sem hann fékk svo aftur til að leika brúðina í Kill Bill. Leikararnir stóðu sig allir mjög vel og það er greinilegt að Tarantino kann að velja í hlutverkin. Ég ætla ekki mikið að tala um söguþráð myndarinnar því ég held að allir hafi séð þessa mynd, ég ætla frekar að tala um leikarana í þessari mynd. Byrjum á Samuel L. Jackson, ég vil meina að þetta sé hans besta frammistaða, bara það að nefna þegar hann tekur ræðuna úr Ezekiel 25:17 finnst mér vera nóg, því það er líklega með betri flutningum á handriti í kvikmynd, síðan gæti ég nefnt atriðið þegar Jackson og Travolta eru að þrífa heilasletturnar í bílnum, bara framúrskarandi frammistaða af hans hálfu. Næst er það Travolta, það eina sem ég ætla að segja um hann er dansinn hans við Uma Thurman, hrein snilld. Bruce Willis kann að vera harður og kann að vera svalur, passar fullkomnlega í mynd eftir Tarantino. Atriðið þegar hann tekur samúræ sverðið og drepur nauðgara er aðeins of svalt, frábær frammistaða hjá gamla góða sköllótta. Uma Thurman leikur Mia Wallace eiginkonu Marcellus Wallace sem er einn harður andskoti, hún stendur sig frábærlega í til dæmis dansinum við Travolta og gefur honum ekkert eftir og á líka gott moment með hvíta skítnum. Það var frekar erfitt að velja mynd eftir Tarantino á topp 10 listann því ég elska allar myndirnar eftir hann og ég hefði alveg eins verið líklegur til að setja nýju og svölu myndina Inglorious Basterds (kem með blogg um hana bráðlega) sem ég sá í gærkvöldi en ég ætla aðeins að melta hana áður en ég læt hana toppa þessa svölu mynd en áður en ég fer að ofofofnýta s-orðið þá ætla ég að segja þetta gott um þessa mynd.


3. Apocalypse Now (1979)


Þessi mynd eftir meistara Coppola kom út árið 1979 og er að mínu mati besta stríðsmynd allra tíma. Hún fjallar um hermanninn Benjamin L. Willard, sem leikinn er af Martin Sheen, hann er frekar skemmdur eftir að hafa verið í Víetnam stríðinu. Einn daginn fær hann sérstakt verkefni um að finna Walter E. Kurtz, sem leikinn er af Marlon Brando. Hann fer ásamt liði sínu í að finna Kurtz. Á leið sinni lendir lið hans í ýmsum hremmingum. Mér finnst Coppolla ná hryllingnum í stríðinu mjög vel og geðveikinni sem fylgir stríði. Myndin er frekar drungaleg eins og ég mundi mér að stríð væri. Uppáhaldsatriðið mitt í þessari mynd er þegar þyrlurnar eru að fljúga fram hjá myndavélinni með lagið The End eftir Doors undir og allur frumskógurinn er sprengdur upp með Napalm með myndskeið af Sheen reykjandi sígarettu, þetta er svo magnað atriði að mínu mati. Mér fannst frekar leiðinlegt að velja Apocalypse Now fram yfir Godfather 1 og 2 eftir Coppola en maður verður víst einhver staðar að draga mörkin á listanum, því hann getur víst ekki verið endalaust.


4. Rashomon (1950)


Rashomon kom út árið 1950 og er eftir japanska meistarann Akira Kurosawa, sem hefur gert margar toppmyndir á borð við Seven Samurai, Ran og Yojimbo. Þessi mynd gerist í litlu þorpi í Japan þar sem morð var framið, það er svosem ekki frásögu færandi, þar sem dauði er daglegt brauð í þessu þorpi, en það sem var einkennilegt við þetta morð að það voru fjórir eða fimm mismunandi vitnisburðir um hvað raunverulega gerðist. Banditinn sem er í haldi fyrir morðið, segir eina sögu, draugur samúræsins sem dó segir aðra sögu og konan sem þeir voru að berjast um segir aðra sögu og það er í rauninni áhorfandinn sem á að ákveða hverjum á að trúa. Kurosawa notar mikið af „flashbacks“ í þessari mynd og finnst mér þessi mynd bæði áhugaverð og skemmtileg. Ég hef séð fjórar myndir eftir Kurosawa og þær fjalla allar á einn eða annan hátt um baráttuna á milli bandita og samúræja, eiginlega svona aðaleinkennin fyrir hans myndir. Aðalástæðan fyrir því að ég valdi þessa mynd fram yfir Seven Samurai er aðallega lengdin á þessum tveimur myndum, Rashomon er í krinum 90 mínútur á meðan Seven Samurai er nánast helmingi lengri. Þær eru báðar meistarastykki að en mér finnst bara miklu skemmtilegra að horfa á þessa mynd og þess vegna varð hún fyrir valinu. Mæli samt eindregið með því að fólk kynni sér þennan leikstjóra ef það þekkir hann ekki, held að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.


5. Fight Club (1999)


Fight Club kom út árið 1999 og er eftir leikstjórann David Fincher. Fincher hefur gert fleiri snilldar myndir á borð við Seven og The Curious Case of Benjamin Button. Í þessari ofursvölu mynd leika Edward Norton, Brad Pitt og Helena Bonham Carter. Ég held að ég þurfi ekki að vera með mörg orð um söguþráðinn í þessari mynd, þar sem allir ættu að hafa séð hana. Fight Club er frekar myrk mynd um tvo menn sem stofna slagsmálsklúbb sem þróast síðan í að verða miklu stærra og alvarlegri samtök. Það er eitthvað við það að sjá fólk lemja hvort annað sem er alltaf jafn skemmtilegt áhorfsefni.


6. Blade Runner (1982)


Blade Runner er mynd eftir Ridley Scott frá árinu

1982. Þetta er framtíðarmynd sem snýst um að svokallaða Blade Runner Unit hefur það ætlunarverk að finna og drepa vélmenni sem kallast Nexus 6. Harrison Ford er aðalhlutverkið í þessari mynd og stendur sig bara mjög vel. Ridley Scott hefur gert nokkrar stórmyndir eins og Alien og Gladiator, Blade Runner er samt besta myndin hans að mínu mati. Þetta er frekar þung mynd þegar maður horfir á hana í fyrsta skiptið. Ég held að ástæðan fyrir því að Ridley Scott hafi ákveðið að gera allt í þessari mynd svona þungt (borgin sem myndin á að gerast í er mjög dökk og notað mikið af skuggum og tónlistin er þung og taugastrekkjandi) er til að áhorfandinn geri sér grein fyrir því að lífið er ekki æðislegt í framtíðinni eftir uppreisn vélmennanna Nexus 6. En eftir því sem ég horfi oftar á þessa mynd elska ég hana bara meira og meira og þrátt fyrir að maður viti hvað er að fara að gerast þá er maður samt taugastrekktur (útaf tónlistinni og myrkrinu). Besta atriðið, að mínu mati, í þessari mynd er þegar Rick Deckard (Harrison Ford) og Roy Batty (Rutger Hauer) eru í eltingarleik í húsinu. Í því atriði er Hauer geðveikur og maður er eiginlega bara hræddur við hann, sem er markmiðið í því atriði. Sjúkt atriði með góðri myndatöku og góðum leik frá Ford og Hauer. Mjög vel gert hjá Ridley sem hefur greinilega tekið mikið af hugmyndum sem hann notaði í Alien og yfirfærði á þessa mynd, t.d. að hann lætur mann bíða frekar lengi eftir því að atriðið nær hámarki.


7. M (1931)


M er mynd eftir Fritz Lang frá árinu 1931. Myndin fjallar um stelpumorðingja í Þýskalandi á þessum tíma. Morðingi gengur laus og lögreglan hefur engar vísbendingar um hver morðinginn sé eða hvar hann heldur sig. Borgin sem myndin gerist í fyllist móðursýki og allir telja sig vita hver morðinginn er, en í raun veit það enginn. Lögreglan verður stressuð og setur mikið af liði í það að reyna að finna þennan stelpumorðingja. Aðrir glæpamenn geta ekki stundað sína glæpi því lögreglan er á hverju horni og þess vegna ákveða þeir að leggja lögreglunni lið. Ég hef séð tvær myndir eftir Fritz Lang, þessa og svo Metropolis sem var með fyrstu framtíðarmyndum sem gerðar voru, báðar frábærar á sinn hátt. Það mætti segja að Lang sé brautryðjandi fyrir framtíðarmyndir og var hann einn besti leikstjórinn á þessum tíma. Í þessari mynd notar hann nánast enga tónlist, eina lagið sem ég man eftir í þessari mynd er lagið sem flautar þegar hann er að lokka stelpurnar til sín, ég veit ekki hvað það lag heitir. Besta atriðið í þessari mynd er í lokin, ég ætla samt ekki að eyðileggja það fyrir þeim sem eiga eftir að sjá þessa mynd, mjög tryllingslegt atriði.


8. Spirited Away (2001)


Spirited Away er eftir leikstjórann Hayao Miyazaki og kom út árið 2001. Ung stelpa ráfar óvart inn í heim sem er fullur af yfirnáttúrulegum verum. Hún eignast nokkra vini þarna en í svona heimi er ekki hægt að komast hjá því að eignast líka óvini, sama hversu lítil og sæt maður er. Það eru margar skemmtilegar verur í þessum heimi, eins og draugurinn sem talar skringilega, sem er vinur litlu stelpunnar og reiða amman. Litla stelpan okkar lendir í mörgum misskemmtilegum atburðum í þessum töfraheimi. Ef þið hafið gaman af teiknimyndum eða viljið sjá eitthvað öðruvísi en Pixar teiknimyndirnar (sem mér finnst flest allar samt mjög góðar) þá mæli ég eindregið með því að kíkja á þessa mynd.


9. 12 Angry Men (1957)


12 Angry men er eftir leikstjórann Sidney Lumet og kom út árið 1957. Myndin fjallar kviðdómendur sem eru að dæma í máli um morð. Allt bendir til þess að maðurinn sem er fyrir rétt sé sekur og kviðdómendurnir eru allir sammála því nema einn maður. Þessi maður lætur ekki bugast af hópþrýstingi og vill að þeir fari yfir þetta mál betur. Hann veit í rauninni ekki afhverju hann tekur málstað ákærða en hann gerir það samt. Hinir kviðdómendurnir verða pirraðir á honum en þeir neyðast samt til að hlusta á hann þar sem það verður að vera samhljóða niðurstaða til þess að það sé hægt að dæma. Eftir því sem líður á myndina verður herbergið minna og þrengra, ég verð að viðurkenna að ég tók ekki eftir því afhverju það var fyrr en Siggi sagði það í tíma í dag, en ég fékk samt nákvæmlega þá tilfinningu þegar ég horfði á myndina, takk fyrir að benda mér á það Siggi. En já allavega, herbergið sem myndn er nánast öll tekin upp í er mjög heitt, vegna þess að loftræstingin er biluð. Þessi mynd er mjög góð og kennir manni að þótt maður standi einn þá getur maður samt haft áhrif.


10. American Psycho (2000)


American Psycho er eftir leikstjórann Mary Harron og kom út árið 2000. Myndin fjallar um Patrick Bateman (Christian Bale) sem er ríkur maður sem stjórnar fyrirtæki. Hann er fullkomnunaristi og ofar öllu vill hann vera yfir alla hafinn. Á kvöldin breytist hann í mann sem tekur eiturlyf, lemur fólk sem betlar og drepur. Allt sem hann gerir er samt gert á fullkominn hátt, hann er nú með fullkomnunaráráttu. Hann er geðsjúklingur þótt hann geti falið það mjög vel. Það eru mörg brjáluð atriði í þessari mynd og maður vill alls ekki vera nálægt Bateman þegar hann er í geðsjúklingahamnum sínum. Mér finnst þessi mynd fáranlega svöl og Christian Bale vera æðislegur í þessu hlutverki, því það er eitthvað við hann sem er svo geðsjúkt. Hann á það samt til að ofleika í myndum sínum, það sést kannski best á hans hlutverki sem Batman, þar sem hann talar eðlilega sem Bruce Wayne en talar síðan með fáranlega skrýtinni röddu þegar hann er Batman. Besta atriðið í þessari mynd að mínu mati er þegar hann fær tvær vændiskonur heim til sín, ég segi ekki meira ef það eiga einhverjir eftir að sjá hana. En allavega mjög svöl mynd.